06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Bjarni Jónsson :

Það var auðheyrt á ræðu háttv. þm. Mýr. (J. E.), að jeg er ekki sjerlegur mælskumaður, eða að minsta kosti, að jeg hefi ekki þá hæfileika, sem jeg þarf að hafa, til þess að geta látið hann skilja mig. Jeg var að sýna fram á það áðan, að þessi maður, sem um er að ræða, þyrfti ekki á stöðunni að halda, því að hann hefði nóg að starfa, þótt hann fengi ekki þessa stöðu, en aftur sagði jeg, að staðan væri nauðsynleg, og að ekki mætti sitja sig úr færi með að fá þenna mann, fyrst hann væri fáanlegur. Háttv. þm. (J. E.) hefir því alveg misskilið mig, ef hann heldur, að jeg hafi talað um að stofna embættið handa manninum. Það er svo langt frá því, að þetta frumvarp sje borið fram í því skyni, að hjálpa nokkuð þessum manni, að það er einmitt fram komið til þess að styðja og styrkja Háskólann og hjálpa landinu.