26.07.1915
Neðri deild: 16. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

42. mál, Möðruvellir í Hörgárdal

Stefán Stefánsson:

Eftir undir- búningi þessa máls í hjeraði, furða jeg mig mjög á því, að það skuli vera fram komið. Að vísu er það ekki neitt undarlegt, þótt ábúandinn, Eggert Davíðsson, vilji kaupa jörðina., þar sem óhætt mun mega telja hana eina með allra bestu jörðum á Norðurlandi. En að mig furðar á, að frumv. kemur fram, er af því, að í vetur sem leið, er kaupbeiðnin var lögð fyrir sýslunefndina í Eyjafjarðarsýslu til umsagnar, þá taldi hún að jörðin fjelli undir 2. gr. þjóðjarðasölulaganna, þar sem hún er prestsetur, og auk þess hentug fyrir skóla og má á annan hátt verða til almenningsnota.

Sýslunefndin hefir því af þessum ástæðum eindregið lagt á móti sölunni. Að ástæður nefndarinnar sje á fylstu rökum bygðar, hygg jeg að ekki verði neitað.

Á hina hliðina þá hefir síra Jón byggingarbrjef frá umboðsmanni, sem að vísu er óvanalegt um byggingu prestsetra, en þetta stafar af því, að honum var veitt brauðið sem þingabrauð, eða með öðrum orðum, að því fylgdi ekkert fast eða ákveðið prestsetur, en enginn vafi mun leika á því, að bygging hans gildi að eins á meðan hann er prestur. Við næstu prestaskifti, er sá prestur, er brauðið fær, skyldur að taka við hálflendunni, sem hverju öðru prestsetri.

Nú hefir því verið haldið fram, að sá hluti jarðarinnar, er presturinn situr, sje bygður öldungis á sama hátt og venjulegt er með byggingu þjóðjarða, og hið sama er gefið í skyn í brjefum þeim, sem lögð hafa verið hjer fram um málið, en það ætla jeg sje algjör misskilningur.

Enn fremur hefir það verið venja, þótt hún sje að vísu ekki bindandi, að selja ekki hálflendur eða hluta úr þjóðjörðum.

Jeg sje því ekki ástæðu til þess, þar sem sýslunefnd hefir skýlaust lagt á móti því, að jörðin verði seld, og borið þar fyrir sig bein ákvæði 2. gr. þjóðjarðasölulaganna, að frumv. þetta geti náð fram ganga. Loks má benda á það, að nú er einmitt allsterk hreyfing bæði í Eyjafjarðarsýslu, Akureyrarbæ og Þingeyjarsýslu, að stofna sameiginlegan húsmæðraskóla, og á meðan að ekkert er ákveðið um fyrirkomulag hans, þá virðist mjer því fremur ástæða til, að sú jörðin sje þó ekki seld, er komið getur til mála um að tiltækileg þætti sem skólasetur.

Hvort málinu verður vísað í nefnd, læt jeg mig litlu skifta, því þótt nefnd sje skipuð, þá mundi hún komast að líkri niðurstöðu og jeg nú hefi bent á. Nefndarskipun er því í mínum augum að eins til þess að draga málið.