31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

54. mál, póstsparisjóðir

Jón Magnússon:

Jeg man ekki til þess, að nokkurn tíma hafi verið sett ný nefnd í mál, sem kemur inn í þingið frá nefnd, og jeg skil ekki, að rjett sje, að fara að byrja á því ná. Það gæti komið fyrir, að máli væri vísað til nefndar aftur, til þess að íhuga það betur, en ekki hitt, að kjósa nýja nefnd. Annars má ef til vill segja, að það sje nefndinni sjálfri að kenna, að slíku er hreyft hjer, því að hún hefir ekki borið frumv. fram á heppilegan hátt. Það er að eins stjórn og þingmenn, sem eiga rjett á að flytja frumvörp inn í þingið, og þá eiga þeir að bera þau þar fram eins og þeir vilja að þau sjeu, en annarra tillögur geta þeir þá sent með sem fylgiskjöl.

Mjer þætti það, sem sagt, óheppilegt, ef farið yrði að vísa málinu til nýrrar nefndar, enda skildi jeg ekki orð háttv. þm. Snæf. (S. G.) sem beina tillögu um það, heldur hafi hann að eins viljað hreyfa því, eins og rjett var, að nefndin hefði átt að leggja beinlínis fram sínar tillögur í málinu.