31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

54. mál, póstsparisjóðir

Björn Hallsson:

Jeg verð að taka undir með háttv. 2, þingm. S.-Múl. (G. E.) um það, að þetta eru nokkuð undarlegar umræður, og jeg hafði ekki búist við þeim á þessu stigi málsins. Og þar sem því er skotið fram, eins og háttv. þingm. Dal. (B. J.) gjörði, að það megi vísa málinu til nefndarinnar aftur, þá tel jeg það sama sem vantraustsyfirlýsing til nefndarinnar. Jeg mundi fyrir mitt leyti segja hið sama um málið aftur í nefnd og jeg hefi þegar gjört, og svipað hygg jeg að yrði um aðra nefndar menn. (Bjarni Jónsson: Það var ekki tillaga, heldur að eins bending um hvað formlegt væri). Sama er að segja um það, að fara að bæta mönnum í nefndina. Það væri sama sem að setja nýja nefnd, því að gamla nefndin mundi ekki verða vitrari fyrir það.

Jeg skildi heldur ekki háttv. þingm. Snæf. (S. G.) svo, að hann styngi upp á nefnd, heldur að honum fyndist ekki eiga vel við, að sparisjóðanefnd kæmi fram með breytingartillögu við frumv., sem hún sjálf flytur. En háttv. framsögum, hefir nú upplýst hvers vegna við gjörðum það.

Hæstv. forseti hefir einnig úrskurðað, að málið sje fyllilega formlega fram komið.

Þótt sumir af nefndarmönnum sjeu fremur óvanir þingstörfum, þá höfum við ekki gjört nein afglöp í þessu, og engin ástæða því til annars en að láta málið ganga til 2. umr. og gjöra þá við það þær breytingar, sem þurfa þykir.