06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

54. mál, póstsparisjóðir

Fram. (Guðmundur Hannesson):

Jeg vil alls ekki hindra það, að þetta frumvarp verði sem best athugað og undirbúið. Þó skal jeg geta þess, að nefndin, sem hefir komið þessu frumv. á framfæri, fór í gegn um það grein fyrir grein og reyndi að athuga það sem best eftir föngum. Reyndar var það fyrirætlun nefndarinnar, að fara til póstmeistara og leita hjá honum frekari upplýsinga, en þegar til kom, var hann ekki í bænum, svo það fórst fyrir.

Jeg skal nú leyfa mjer að minnast örlítið á nokkur atriði í ræðu háttv. þm. N.-Þ. (B. S.). Það er þá fyrst að því er snertir það, sem hann sagði um sparimerkin: Jeg býst við, að nefndarmennirnir flestir hafi talið það óvíst, að sparimerki yrðu notuð að mun. En það má vel vera, að frímerki mætti nota með góðum árangri.

Um lágmark vaxta er það að segja, að jeg get ekki vel skilið, að neitt ákvæði um það gæti að verulegu gagni komið. Vextir verða að sjálfsögðu svo háir, sem hægt er, þegar allur kostnaður við rekstur sjóðanna er dreginn frá. Jeg gjöri ráð fyrir, að þeir verði hjer bil 2½–3%, eða nokkru lægri en venjulegir sparisjóðsvextir. En þetta er hæpið að ákveða fyrir fram.

Það er satt, að því er Reykjavík snertir, að uppsagnarfrestur mundi verða næsta þýðingarlítill, og væri því ef til vill ástæða til að setja sjerstök ákvæði um það. En það vakti fyrir nefndinni, að póstsparisjóði myndu engir Reykvíkingar nota, og mjer finst það ósköp eðlilegt, því að vextir póstsparisjóðanna munu verða jafnháir um land alt, og ef þeir verða lægri heldur en gjörist í sparisjóðum bankanna, þá get jeg ekki sjeð, að Reykvíkingar hafi neitt með póstsparisjóð að gjöra.

Það kom til tals í nefndinni, að láta sýslunefndir gefa meðmæli með, hvar stofna skyldi póstsparisjóði í hverri sýslu, en hitt varð þó ofan á, að leggja til, að hreppsnefndir gæfu þessi meðmæli. Það þótti sanngjarnara, vegna afskektra hreppa, sem vildu hafa póstsparisjóði út af fyrir sig, þó sýslunefnd kynni að draga taum sparisjóðs hjeraðsins eða sýslunnar.

Hvað það snertir, að gefa manni heimild til að sjá, hver upphæð er færð inn í póstbókina, þá var nefndinni það ljóst, að ekki bæri að sýna annað en þá upphæð, sem viðkomandi legði inn í hvert sinn, og hafa einhver ráð til þess að ekki sæist, hvað aðrir hefðu lagt inn á sömu síðu. Og það sýnist ekki vera neitt vandamál, því að ekki þarf annað en að leggja pappír yfir það, sem fært hefir verið inn á undan. Þess er krafist í 13. gr., að sparisjóðsbókum sje skilað til póstjórnarinnar, til þess að þær verði rannsakaðar, og ef þetta er látið undan falla, eins og nefndin bjóst við, að altítt mundi verða, þá yrði það skaði viðskiftamannsins, ef póstbókin sýndi minni innieign en viðskiftabók hans sjálfs. Það vakti fyrir nefndinni, að menn fengju að sjá, hver upphæð er færð inn í póstbókina í hvert sinn sem menn leggja eitthvað inn í viðskiftareikning sinn, til að tryggja menn fyrir þessu.

Um 50 ára tímatakmarkið er það að segja, að nefndin hefir sett það inn með tilliti til þess, að eigandi bókar mundi í flestum tilfellum vera dáinn og búi hans skift. Ef enginn hefir gefið sig fram innan þess tíma, þótti rjett, að fjeð fjelli til sjóðsins, en ekki eftir svo skamman tíma, sem frumv. gjörir ráð fyrir.

Að lokum skal jeg taka það fram, hvað mig sjálfan snertir, að mjer er það hreint ekki á móti skapi, að umræðunum verði nú frestað, svo að málið yrði athugað á ný, jafnvel þótt mjer sýnist þessar mótbárur, sem komið hafa fram gegn frumv. ekki hafa við verulega góð rök að styðjast.