06.08.1915
Neðri deild: 26. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

54. mál, póstsparisjóðir

Benedikt Sveinsson:

Út af því, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, skal jeg leyfa mjer að benda á fylgiskjalið frá póstmeisara, sem prentað er með þgskj. 107, þar sem hann færir ljós rök fyrir því, að þessar stofnanir muni verða að gagni. Röksemdir hans eru almenns efnis um fyrirkomulag sjóðanna yfirleitt, og jeg sje ekki annað en að ýmislegt, sem þar er tekið fram, mæli með því, að slíkir sjóðir sjeu stofnaðir hjer, með því að þeir hafa reynst mjög vel í öðrum löndum. (Magnús Kristjánsson: Það á ekki alt við hjer, sem vel reynist í öðrum löndum). Veit jeg það, en úr því að þetta hefir gefist svo vel annarstaðar, þá er ekki ósennilegt, að það geti orðið hagkvæmt fyrir menn hjer. Þessir sjóðir eru til um allan Vesturheim, í Englandi, Svíþjóð, Frakklandi og yfir höfuð í flestum löndum Norðurálfunnar, og hafa hvarvetna þótt koma að góðu liði, og ættu því eins að geta orðið þarflegir hjer. Jeg get ekki skilið, að hætt sje við, að þessir sjóðir yrðu keppinautar annara sparisjóða. Það er ekki ætlast til, að þeir veiti hærri vexti, heldur er tilætlunin sú, að gjöra mönnum hægt fyrir, að koma því fje, sem menn þurfa ekki að nota í svip, til geymslu á öruggum stað. Það er ekki nema gott og þarflegt, að gefa mönnum þannig færi á að koma fyrir spariskildingum sínum, sem að öðrum kosti yrðu ef til vill að eyðslufje. Annars skal jeg ekki neitt um það segja að óreyndu, hvort þessir sparisjóðir myndu verða fremur lítið notaðir hjer. Eftir því, sem mjer heyrðist á hv. framsm. (G. H.), gjörði hann ráð fyrir, að þeir myndu verða fremur lítið notaðir. Hann bjóst við, að sjóðirnirmyndu ef til vill verða eitthvað notaðir utan Reykjavíkur, en í sjálfri Reykjavík alls ekkert. Ef svo færi, .er þörfin ekki næsta mikil. En af því að jeg hefi fallist á rök póstmeistara, er jeg hlyntur þessari hugmynd.

Viðvíkjandi sparimerkjunum skal jeg taka það fram, að þótt tilbúningur þeirra nemi ekki stórfje, þá munar það þó dálitlu, og er fullkominn óþarfi að kasta því fje á glæ, þar sem til eru önnur sparimerki, sem ekkert kosta, nefnilega frímerkin. Þau mætti nota í stað þessara sparimerkja; og við það myndi sparast mikil skriffinska, alt sjérstakt reikningshald og skilagrein fyrir sparimerkjunum, sjerstök sending þeirra um alt land, því að frímerkjareikningur er haldinn og frímerki alstaðar til hvort sem er. Þetta væri því bersýnilega til mikilla bóta. Þar að auki hafa menn stundum afgang af frímerkjum, sem hætt er við að týnist, en sjeu þau jafnframt notuð sem sparimerki, þá myndu menn gefa þau börnum og gætu þau límt þau inn í bækur sínar. Þegar svo er búið að skila frímerkjunum, verða þau stimpluð á pósthúsinu, og getur það síðan selt þau fyrir helming þess verðs, sem þau kostuðu upphaflega. En sparimerkin eru einkis virði. Þetta getur munað töluverðu fje, og virðist alt mæla með því, að frímerkin verði notuð í stað sparimerkjanna. En til þess útheimtist breyting á póstlögunum, svo að pósthúsin hætti að gefa afslátt á frímerkjum. En frumv. um það getur ekki komið öðruvísi fram á þessu þingi hjeðan af en frá nefnd.

Jeg skal ekki þræta við háttv. framsögumann (G. H.) um einstök atriði, enda hygg jeg að það myndi verða þýðingarlítið. Það er víst líkt á komið um okkur báða, að við höfum ekki haft tækifæri til að kynna okkur málið nákvæmlega, og er því naumast

hægt að gjöra ráð fyrir því; að annar hafi alrjett fyrir sjer en hinn alrangt. Viðvíkjandi ákvæðinu um að innleggjandi fái heimtingu á að skoða í póstbókina, sagði háttv. framsm. (G. H.) að vel mætti koma í veg fyrir, að hann sæi meira en það, sem hann hefði sjálfur lagt inn, með því að leggja pappír yfir síðuna. Jeg held að í slíku sje lítil trygging, því að pappírsblaðið getur hæglega sópast burt. Þætti mjer því betur fara á, að sú breyting næði ekki fram að ganga. Hann gat þess enn fremur, að póstmeistari hefði ekki verið heima, þegar nefndin ætlaði að leita upplýsinga hjá honum. Það er rjett, en nú er hann kominn heim, svo að nú getur nefndin ráðfært sig við hann. Jeg vil því að endingu skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vildi ekki taka málið út af dagskrá og bera brtt. undir póstmeistara, áður en gengið verður til atkvæða um þær.