09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

54. mál, póstsparisjóðir

Framsögum. (Guðm. Hannesson):

Þetta mál horfir nú alt öðru vísi við en nefndin hafði ætlast til. Fyrir henni vakti, að póstsparisjóðir yrðu hentug viðbót við aðra sparisjóði í landinu og kæmu einkum þeim sveitum að gagni, sem erfitt eiga með að ná til sparisjóðs. Brtt. nefndarinnar við 2. gr. trygði það, að póstsparisjóður yrði ekki beinn keppinautur við venjulega sparisjóði, en við 2. umr. var hún feld, og hljóta því póstsparisjóðirnir eftir frumv., eins og það .er nú, að verða beinir keppinautar sparisjóða vorra.

Afleiðingin af þessu er sú, að svo framarlega sem póstsparisjóðir þrífast, hrakar sparisjóðum hjeraðanna að sama skapi. Sparifje víðs vegar um land rennur þá alt til Reykjavíkur, og hjeruðin missa þessar einu peningalindir, sem þau hafa nú. Þau missa ekki eingöngu fjeð, heldur fá oftast miklu lakari lánskjör í bönkum, þó fje fengist þar, en þau fá nú í sparisjóðunum.

Í augum sumra manna er það mikill kostur við póstsparisjóði, að stjórnin fái mikið fje milli handa, geti notað það í stað útlendra lána, keypt fyrir það íslensk verðbrjef o. þ. h. Jeg tel vafasamt, að þetta sje rjett á litið. Ef sparifje hjeraðanna þurkast burtu og flytst til Reykjavíkur, þá neyðast þau til að leita lánafjár þaðan. Fjeð vex ekki í landinu, þótt flutt sje það úr hjeruðunum til Reykjavíkur.

Eins og frumv. horfir nú við, get jeg alls ekki greitt því atkvæði mitt.