09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

54. mál, póstsparisjóðir

Framsm. (Guðmundur Hannesson):

Það er hverju orði sannara hjá háttv. þingm. N.-Þing. (B. S.), að þegar litið er til vaxtanna, þá eru þeir minni í póstsparisjóðum en annarstaðar, þar sem hægt er að ávaxta sparifje. En reynslan hefir orðið sú ytra, að margir menn hafa litið síður á það, þótt vextirnir væru lægri, en þótt meiru máli skifta, að geymsla fjárins væri trygg, og lagt því fje sitt í póstsparisjóði. Líklegt að mönnum færi eins hjer í þessu efni. Þó taldi nefndin, að það mundi vega hjer þyngra, að menn vilja gjarna dylja, að þeir eigi fje í sjóðum. Þess vegna senda sveitamenn fje til Reykjavíkur í stað þess, að láta það í hjeraðssjóði, þó þeir kynnu að vera góðir, og dregst fjeð þannig úr sveitunum. Kæmust póstsparisjóðir á stofn myndu slíkir menn nota þá frekar en hjeraðssjóðina.

Erlendis safna menn miklu fje; þar eru miljónir verkamanna o. fl., er fá alt af kaup sitt greitt á viku hverri, og kemur vel, að geta fyrirhafnarlítið komið því, er kann að verða afgangs þörfum, í póstsparisjóð. En hjer fá flestir afgangsfje sitt greitt á vissum tímum árs, tvisvar eða þrisvar, og geta venjulega komið fjenu á sparisjóð hjeraðsins fyrirhafnarlítið. Hvað starfstímann snertir má gjöra ráð fyrir, að póstsparisjóður sje lengur opinn á degi hverjum, en ekki mun þetta miklu skifta úti um land, því sparisjóðirnir munu gjöra sitt til að afgreiða menn, ef nauðsyn krefur, á hvaða tíma dags sem er.