31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

66. mál, Skarfsstaðir í Hvammssveit

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg þykist ekki þurfa að skýra þetta mál neitt verulega hjer, þar sem jeg ljet það fylgja á fylgiskj. með þessu frumv., er mjer þótti við þurfa, og geta menn hæglega kynt sjer það, þeir er vilja. Maðurinn, sá er hjer ræðir um, hefir tvisvar sótt um að fá jörðina keypta, en ekki fengið, enda þótt sýslunefnd legði með kaupunum. Mun þar hafa hamlað brjef frá sóknarprestinum, sem skýrði þar frá, að á þessari jörð myndi með tímanum verða kauptún, líklegt til þess, að framfleyta fjölda manns. En þetta er nú reyndar á engu bygt þjá þeim góða manni, þar eð á þenna stað myndu aldrei sækja nema þeir bæir, sem jeg skal leyfa mjer að telja upp, nema að miklu betri verslun yrði þar en annarstaðar, sem er næsta ólíklegt. Bæirnir, sem gætu komið til mála, eru þessir: Skerðingsstaðir, Hvammur, Akur, Skarfsstaðir, Kýrunnarstaðir, Knarrarhöfn, Teigur, Ketilsstaðir og Rauðbarðaholt. Er þá alt upp talið, og vona jeg að menn sjái, að hjer er ekki um nein ósköp að ræða. Það er áreiðanlegt, að aðalkauptúnið þar á þessum slóðum verður alt af Búðardalur, vegna þess, að þangað sækja hægast þær sveitir, er mest verslunarmagn hafa, Laxárdalurinn og Suður-Dalir, þær sveitir, er liggja fyrir sunnan Búðardal. En þarna á Skarfsstöðum gæti í hæsta lagi hugsast, að einhver er verslun ræki, setti þar upp geymsluhús fyrir vörur handa þeim bæjum, er jeg nefndi áðan. Kaupfjelag Dalamanna hafði þar eitt sinn geymsluhús, en hætti svo við það, vegna þess að því þótti það ekki borga sig. Enda hefir sýslufundur, er haldinn var ekki fyrir löngu, mótmælt því, að þarna gæti orðið kauptún.

Ef jeg fyndi, að stjórnin myndi fús til þess að selja manninum jörðina, þá myndi jeg jafnfúslega taka frumvarpið aftur. En hæstv. ráðherra hefir, að því er hann hefir einslega skýrt mjer frá, ekki haft tíma til þess, að kynna sjer málið, og getur því víst eigi að sinni gefið mjer svar, svo að jeg læt mjer þá nægja að biðja um að málinu verði vísað til 2. umr.