31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

66. mál, Skarfsstaðir í Hvammssveit

Ráðherra:

Það er alveg rjett hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að jeg hefi enn ekki haft tíma eða tækifæri til þess, að kynna mjer þetta mál, og get því ekkert um það sagt að sinni. En úr því að stjórnin hefir áður neitað sölunni tvisvar, að því er mjer skilst, (Bjarni Jónsson: Veit ekki með vissu svar hennar við síðari beiðninni), þá hygg jeg ekki miklar líkur á því, að stjórnin fari að brjóta í bág við fyrri gjörðir í þessu máli. En jeg þykist nú reyndar vita, að ef stjórnin neitaði að selja, þá myndi háttv. þingmaður (B. J.) halda málinu til streytu hjer í deildinni, og færi þá sennilega svo, að því, eftir eitthvert þjark, yrði vísað til landbúnaðarnefndar.

Jeg gjöri þess vegna að tillögu minni, að því verði nú þegar vísað til landbúnaðarnefndarinnar, og hún látin búa í hendur þingsins.