13.08.1915
Neðri deild: 32. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

66. mál, Skarfsstaðir í Hvammssveit

Framsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil að eins geta þess, að þetta brjef frá prestinum í Hvammi er frá 1908. Hann var þá nýkominn þangað. Nú hefir hann sannfærst um, að skoðun sín væri röng, höfuðástæðurnar ekki rjettar. Kaupfjelag, sem hafði bækistöð sína í Skarfsstaðanesi, varð að leggja hana niður, af því að það borgaði sig ekki að hafa hana þar. Aðalástæðan í nefndinni móti sölu jarðarinnar var nú einmitt það, að þarna væri heppilegur staður fyrir kauptún, en svona gafst nú kaupfjelaginu þetta.

Viðvíkjandi ummælum háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) um sýslunefnd Dalasýslu, eru þau óþörf og óviðeigandi. Og öðru vísi leit hann á umsögn sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu um sölu á Möðruvöllum. En það segi jeg satt, að jeg mætti lengi leita að sýslunefnd, ef jeg vildi ekki heldur hlíta hennar úrskurði en háttv. form. þessarar nefndar (St. St.), eða háttv. meiri hluta hennar. Og þar sem sýslunefnd Dalasýslu hefir tvívegis lagt til með sölu jarðarinnar, er því meiri ástæða til að vita þessi ummæli háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Og það má háttv. háttv. 2. þm. Eyf. vita, að sýslunefnd Dalasýslu megi vera mál þetta alt kunnugra en honum sjálfum eða meiri hluta nefndarinnar, því að auk mín var einn maður í nefndinni, sem kunnugur var í Dalasýslu. (Sigurður Sigurðsson: Þeir voru tveir). Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er þar ókunnugur.