18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

48. mál, aukabað á sauðfé

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Hannesson):

Jeg stend að eins upp til að leiðrjetta þann misskilning hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að þrifaböð komi að litlu eða engu haldi. Jeg veit, að bændur telja sjer mjög mikinn hagnað að þeim og myndu halda þeim áfram jafnt eftir sem áður, hvort sem þetta kæmist á eða ekki. Það vex engum í augum, að verja 30,000 kr. til þessa aukabaðs, ef víst væri, að það bæri árangur. Háttv. þm. Dal. (B. J.) fullyrðir, að enginn sparnaður væri að fella það. Landssjóði er það að minsta kosti sparnaður. Hitt finst mjer mega minna á, að ef fjárkláði er mikill í Dölunum, ætti það ekki að vera ókleift fyrir búendur, að baða á eigin kostnað, einkum nú, þegar afurðir þeirra allar eru í mjög háu verði. Menn hafa sagt við mig, að þótt þeir ættu að baða tvisvar á ári, þá myndu þeir gjöra það með glöðu geði, ef þeir gætu vænst árangurs af því. En jeg er óviss um, hvort slíkt aukabað kæmi að tilætluðum notum. Jeg veit ekki, hvort tóbaksbað drepur mauraeggin, og jeg hygg, að enginn viti það með vissu. Hafi Magnús dýralæknir gjört einhverjar tilraunir með það, þá er mjer ókunnugt um árangurinn.

Jeg vil svo að lokum mótmæla því, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að þingmenn láti ekki svo lítið að lesa bækur. Jeg verð að telja það algjörlega óþarft, að prenta þennan gamla kláðabækling sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.