02.08.1915
Neðri deild: 22. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Jeg vona, að háttv. þingmenn reiðist mjer ekki, þótt jeg rifji upp fyrir þeim það, sem þeir auðvitað vita, og vita sjálfsagt betur en fávís kennari í gömlu málunum og óþarfur að dómi vísindamannanna í Gufudalshreppi og annara jafnsnjallra.

Hjer liggur fyrir frumv. um háskólakenslu í hagnýtri sálarfræði. Þá er fyrst að rifja það upp, hvað sálarfræði er. Verð jeg þá fyrst að geta þess, að nú horfir alt öðru vísi við en áður, meðan Hegel og fylgifiskar hans vildu láta allar gagnstæður og mótsagnir sameinast í »hærri einingu«, meðan enginn nefndi sál, nema hann ætti við ódauðlegan, andlegan hluta mannsins, sem ætlaður væri til að erfa sáluhjálpina, eða þá færi í þann eld, sem slokknar ekki. Nú fæst sálarfræði að eins við rannsókn á vitundarlífi manna í þessu lífi, eða með öðrum orðum meðvitund þá, sem er samfara lífi og starfi líkamans. Hitt er ekki verk sálarfræðinnar að rannsaka, hvort sú vitund, sálin, deyi um leið og líkaminn eða ekki. Það er verk heimspekinnar, en heimspeki kallast sú fræðigrein, sem reynir að finna rökstudda lífs- og heimsskoðun. Hún byggir á öllum greinum mannlegrar þekkingar, þar á meðal sálarfræðinni. Margir munu ef til vill halda, að mjer hafi orðið mismæli, er jeg greindi svo skarpt heimspekina frá sálarfræðinni, en það er þó ekki. Því að sálarfræðin er nú ekki lengur leikvöllur ímyndunarafls og hugarburðar eða draumkendar vonir og spádómar um annað líf. Nei, nú hefir hún fengið þá eðlilegu stefnu, að rannsaka uppruna og eðli vitundarinnar og samband hennar við þann lifanda líkama, sem hún býr í. Hún er því orðin ein grein náttúrufræðinnar, enda reyna menn nú að haga rannsóknum sínum um þau efni svo, að farið sje eftir sömu rannsóknarlögum, sem tryggileg eru talin í öðrum greinum náttúrufræðinnar.

En einmitt þess vegna, geta nú allir verið sammála um, að rannsókn og þekking á sálarlífi manna sje eitt af því, sem er nauðsynlegast af öllu. Rjett er nú að skifta náttúrufræðinni í tvær höfuðgreinir, fræðina um alt það, sem er fyrir utan vitundina, umheiminn, og fræðina um vitundina sjálfa. Tengiliðliður þar á milli er líkaminn og sú fræði, sem þar um fjallar, t. d. læknisfræði.

Einn heldur, að sálin sje ódauðleg, sjálfstæð vera, annar heldur hana margskipta og suma hluta hennar dauðlega, aðra ódauðlega, eins og t. d. Plato. Þriðji heldur hana eina konar afltegund, í ætt við rafmagnsstrauma eða geisla, búandi í efninu eða efnið í henni. Þó geta þeir allir verið sammála um gagnsemi og nauðsyn þeirrar vísindagreinar, sem vjer nefnum sálarfræði; þó geta þeir stundað hana allir með sömu vísindanákvæmni og aðferðum. Af því að rannsóknin er um það, hvernig vitund starfar í lifanda líkama, hvert eðli eða aldur sem hún annars kann að hafa.

Þótt allir þessir menn hafi gjörólíkar skoðanir á »sál«, þá geta þeir samt allir tekið undir með Bjarna:

Þótt tungla teljir klasa,

er tindra um himinbaug,

og getnaðarlimu grasa

og grastegundir í haug,

vitir alt, ei varðar mig:

Þann jeg kalla þekkja lítt,

sem þekkir ei sjálfan sig.

En til hverra hluta er þá sálarfræði nytsamleg? Að hverju leyti er hún hagnýt?

Jeg verð að láta mjer nægja upptalningar, því að jeg mundi eyða of miklum dýrmætum tíma fyrir þinginu, ef jeg færi að rekja það nákvæmlega.

Það mun flestum kunnugt, að læknar þurfa mjög á sálarfræði að halda, enda mætaat þær fræðigreinir í því, sem á útlendar tungur er nefnt psychophysik, og í geðveikifræði. Svo að heilsufræði og lækningar þurfa á henni að halda.

Við uppeldi og kenslu er sálarfræðin alveg óhjákvæmileg. Jeg þarf ekki að minna þá á það, sem alt af eru að kasta hnútum í kennara gömlu málanna, að sá verður að þekkja sálina, sem ætlar að laga hana og þroska.

Þá þarf og listamaðurinn á henni að halda, því að frægð hans er undir því komin, hvernig honum tekst að ná tökum á sálum annarra manna. Á þetta þarf jeg ekki að minna þá menn, sem sýnt hafa svo mikið örlyndi við listamenn, sem alþingismenn hafa gjört.

Þá geta ekki vísindamennirnir komist af án hennar, t. d. sagnfræðingar. Það er ekki hlutverk þeirra að skrifa annála um, hvað gjörst hafi, heldur gjöra grein fyrir sálaröflum þeim, sem komið hafa viðburðunum af stað. Saga þrjátíuárastríðsins er bundin við skilning á eðli og afleiðingu þeirra trúarkenda, sem komu því af stað.

Dómarar mega með engu móti vera án þekkingar í sálarfræði. Og svo að jeg fari nær oss — löggjafarnir, hvernig eiga þeir að semja lög án þekkingar á sálarfræði? Mundi ekki nauðsynlegt að vita eitthvað um það, hvort viljinn er orsökum bundinn eða ekki, þegar semja skal refsirjett og lög yfir höfuð? Hvernig á dómari að meta brot manna eða gildi vitnisburða án sálarfræði, eða dæma um, hvort maður sje sekur eða saklaus?

Mjer til styrktar get jeg vitnað til höfundar, sem jeg nefndi nýlega í öðru máli, Franz von Liszt. Hann segir þar í formála, sem hann hefir ritað fyrir »Grundriss der Psychologie für Juristen« eftir Otto Lipmann, að lögfræðingum sje sálarfræðin nauðsynleg, og vill hafa sjerstakan æfingaskóla handa þeim, sem eiga að fást við glæpamál. Sjálfur hefir hann stofnsett slíkan æfingaskóla á sinn kostnað.

Þá er og, eins og háttv. flutnm. (M. Ó.) gat um, mikil þörf sálarfræðinnar í búskap, iðnaði og verslun. Hún er nauðsynleg til þess að vita, með hverju móti megi fá sem mesta vinnu, án skaða fyrir verkamanninn. Allir vita, hver munur er á æfðum manni og óæfðum. En til þess að komast að fastri niðurstöðu um þessi efni, þarf sálarfræðirannsóknir, og þegar þeim er lokið, má prófa nothæfi manna. Það er auðvitað, að þessi kennari getur ekki, jafnskjótt sem hann er kominn í embætti, rutt öllu úr sjer, sem hjer að lýtur, en smám saman vinnur hann að þessu, stýrir tilraunum og safnar verkefni, til þess að finna almennar reglur, sem ófundnar eru.

Í öllum höfuðatvinnuvegum eru oft menn, sem betur ættu heima í öðru starfi, en þessu mætti oft hjálpa við með einföldum tilraunum, sem miðuðu að því, að finna hæfileika manna til ýmsrar vinnu, og haga síðan vinnuskiftingunni eftir því. T. d. hefir verið reynt, hvern hreyfingarhraða hönd eða fótur o. s. frv. þarf að hafa, til þess að reglubundin hreyfing verði svo nákvæm sem unt er:

fótur 80 sinnum á mínútu.

höfuð 20 — — —

hönd 120 — — —

Hreyfing handarinnar hefir tekið yfir 14 hundstikur. Mældar hreyfingar 1/3 milljónar.

Þetta er einstakt dæmi, til þess að gefa mönnum einhverja hugmynd um, hvern veg slíkri rannsókn er háttað, en hjer yrði of langt mál að rekja, hvernig sálarfræðin getur orðið atvinnuvegunum að liði, enda er mjer málið eigi svo kunnugt

En jeg mun nú sýna mönnum dæmi þess, að menn eru farnir að starfa að þessu, og að hjer er ekki um neitt þvaður eða humbug að ræða, eins og sumir kunna að halda. Það er íslenskt orðtæki, að bókvitið verði ekki látið í askana; en sú setning reynist ekki rjett, eins og sjá má af Psychotechnik eftir Hugo Münsterberg, um vinnuvísindi, og annarri enskri um samferðir líkams- og sálarhæfileika. Þessar bækur hefi jeg hjer við höndina og enn fremur um sálarfræði og lestrarkenslu og sálarfræði auglýsinganna. Þó má víst fullyrða, að þessi grein, hagnýt sálarfræði, sje enn að sumu leyti á bernskuskeiði.

Það, sem jeg nú hefi sagt, hefi jeg talað til þess að benda vantrúuðum sálum á, að þessi vísindagrein er ekki neitt kák eða þvaður, eða það, sem á erlendum málum er kallað »Humbug«. Jeg hefi sagt það til leiðbeiningar þeim, sem vita ekki, en jeg skal taka það fram, að jeg býst ekki við, að hægt verði með hagnýtri sálarfræði að hafa áhrif á hálfmentaða menn, sem hafa einhvern tíma gengið í skóla, en gleymt öllu og þykjast þó vera svo vitrir, að þeir beri allan vísdóm veraldarinnar í kollinum, því að það er, eins og gamla máltækið segir: »ilt er að kenna gömlum hundi að sitja«.

Þetta, sem jeg hefi nú sagt um sálarfræðina, geta menn fullvissað sig um, með því að lesa einhverjar bækur, sem um þetta efni fjalla, eða spyrja fræðimenn, sem vit hafa á þessu máli. Þá skal jeg næst reyna til að gjöra mönnum skiljanlegt, að nauðsyn sje á að stofna þetta embætti. Það er reyndar 1 kennari við Háskólann í heimspekilegum fræðum, en hann hefir ærið að starfa, þótt hann bæti ekki á sig slíku starfi sem þessu; það væri honum með öllu ómögulegt. Þessi kennari, prófessor Ágúst Bjarnason, á fyrst og fremst að kenna forspjallsvísindi, og þar er í ofur lítið ágrip af sálarfræði, og svo á hann enn fremur að kenna þeim stúdentum, sem vilja lesa heimspeki til hlítar við þennan Háskóla, ef þeir verða einhverjir í framtíðinni. Hans aðalstarfsvið er saga heimspekinnar og rökfræðin (logik), en ekki sálarfræðin. Það sjá allir, að það er alveg ómögulegt að leggja meiri vinnu á manninn. Það er því auðsætt, að svo framarlega, sem við Íslendingar viljum hagnýta okkur þau sálfræðisvísindi, sem hafa tekið svo miklum framförum nú upp á síðkastið í heiminum, þá verðum við að fá sjerstakan mann til þess að kenna okkur. Með því eina móti getum við lagt stund á hagnýta sálarfræði. Það er reyndar svo með þessa vísindagrein, að hún er enn í bernsku; það er fyrst nú á síðustu tímum, sem mönnum fór að skiljast, að hún væri ein grein náttúruvísindanna, en síðan mönnum skildist, að hjer var um raunveruleg vísindi að ræða, hefir margt og mikið verið gjört til þess að rannsaka og gjöra tilraunir í þessa átt, og nú er svo komið, að við Íslendingar eigum völ á ágætlega hæfum manni, til þess að kenna okkur að þekkja þau sannindi, sem sálfræðingar síðustu tíma hafa fundið, og gjöra sjálfur tilraunir á sálfræðilegum sviðum.

Jeg sagði, að við hefðum völ á ágætum manni. Jeg býst við, að sumum finnist nú, að jeg hafi ekki mikið vit á slíku, því nú er svo komið á landi voru, að jafnvel búandkarlar, sem aldrei hafa sjeð latínska eða gríska bók, dirfast að hafa skoðun um það, hvort jeg hafi nokkra þekkingu í þeim fræðum. Þeim mun því finnast þeir hafa eins mikið vit á að dæma um sálarfræðisment Guðm. Finnbogasonar eins og jeg. En jeg get þó frætt menn á því, að þessi maður (G. F.) hefir verið nemandi minn, og jeg hefi síðan fylgt ferli hans með áhuga og get vitnað það, að námsferill hans er mjög lofsverður. Hann hefir vaxið frá smalaprikinu og er nú orðinn einn af best mentuðu mönnum þessa lands. Doktorsritgjörð hans ber þess ljósan vott, að hann hefir lifandi, sjálfstætt ímyndunarafl, og hitt vita allir, að framsetning hans bæði á ræðu og riti er einstaklega ljós.

Það hefir verið minst á það hjer, hvað hann ætti að fá til að gjöra í þessu embætti sínu. Ef menn eru í vandræðum með að fá honum nægan starfa, þá skal jeg fúslega gefa leiðbeiningar í því efni. Því að það er víst, að hann mun fá of mikið en ekki of lítið að starfa. T. d. skal jeg benda á, að læknadeildin hjer við skólann þarf mikið að vinna með slíkum manni. Í sambandi við læknadeildina mundi hann gjöra rannsóknir sínar í »Psykofysik« og yfir höfuð á uppruna meðvitundarinnar. Hann hlyti að hafa á hendi að búa kennaraefni þessa lands undir æfistarf þeirra, því að það má með sanni segja, að nú er ekki undirbúningsmentun kennara í því horfi, sem hún ætti að vera. Nú fáum við börnin í hendur mönnum, sem ekki hafa hugmynd um sálarfræði, til þess að þeir búi þau undir lífið. Það er hægt að senda mann til þess að moka mold, þótt hann hafi ekki áður snert á reku, en hitt er mjög óviturlegt, að fá óhæfum mönnum í hendur ómótað vax barnssálarinnar, til þess að láta þá móta það. Þótt hann ætti nú ekkert annað að vinna, en búa kennaraefnin undir stöðu sína í lífinu, þá væri það samt eitt ærinn starfi einum manni.

Jeg nefni það ekki, hvað listamenn vorir ungir gætu grætt mikið á því, að hlusta á fyrirlestra hans, en sagnfræðingum vorum og málfræðingum er það næsta nauðsynlegt, að hafa slíkan mann til að fræðast af.

Þá skal jeg loks minnast á eitt, sem þessi maður ætti að hafa með höndum, sem ekki er minst um vert. Það er nefnilega mjög nauðsynlegt, að setja á stofn námsskeið í sambandi við lagadeild Háskólans, handa útskrifuðum lögfræðingum. Þar ættu þeir að geta lært alt, sem að sálarfræði lýtur í fræðigrein þeirra. Það er alveg nauðsynlegt, að þeir eigi kost á að kynna sjer nýjustu vísindalegar rannsóknir viðvíkjandi sálarástandi ákærðra manna. Að þetta er nauðsynlegt, að setja á stofn slíkan skóla, sjá allir, þegar þeir gæta að því, að það fylgir afar mikil ábyrgð því, að kveða upp dóma, því það er ekki einungis, að líf manna geti verið í veði, heldur einnig það, sem er miklu dýrmætara en lífið, æra og mannorð.

En nú kem jeg að því hlutverki, sem þessi maður ætti að vinna, og mjer finst að allir ættu að fagna yfir, að hægt er að fá hann til að vinna, og það er það, að rannsaka vísindalega öll vinnubrögð manna og leiðbeina mönnum í því, að velja sjer verkahring, og kenna aðferðir, til þess að meta verklagni manna við ákveðin störf. Við þetta starf getur þessi maður orðið að ómetanlegu gagni landi og lýð.

Af því, sem jeg nú hefi sagt, ætti öllum að vera ljóst, að það er ekki einungis að nóg sje fyrir einn mann að gjöra í slíkri stöðu, sem þessari, því að það starf, sem þessum manni er ætlað, er nægilegt fyrir 2–3 menn.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að kostnaðinum við þetta »nýja embætti«, sem menn svo kalla. Það klingir sí og æ hjer í þinginu hróp, um að ekki megi stofna nein ný embætti. En hví eru menn að kalla slíkt starf sem þetta embætti? Þetta er ekki annað en verk, sem landið lætur vinna, og það græðir á hundraðfalt á ári. Jeg er viss um það, að bændur, sem eiga 9/10 hluta engjanna óslegnar, segja ekki við sjálfa sig: »Nú má jeg ekki taka fleiri kaupamenn«. Nei, þeir verða einmitt fegnir að fá sem flesta, enda er það eðlilegt. Eins ætti landsbúskapnum að vera farið, að því fleiri verkamenn, sem landið fær, því mein verða tekjurnar, og því meira sem óunnið er af nauðsynjaverkum, því fleiri vinnumönnum þarf við að bæta.

Jeg mun nú sýna fram á, að það væri sparnaður að setja þetta embætti á stofn. Tel jeg þar til fyrst, að rannsóknir hans og starf mundi margborga sig beinlínis, og þó einkum óbeinlínis. En svo er annað, sem kemur til greina í þessu máli. Sá maður, sem hjer er um að ræða, dr. Guðm. Finnbogason, hefir farið frá smalaprikinu og út á mentabrautina og er nú orðinn einn af allra best mentuðu mönnum landsins, hefir numið fræði sín af ágætum mönnum, fyrst í Kaupmannahöfn, en síðan notið þess eina vísindastyrks, sem til er í þessu skyni, Hannesar Árnasonar styrksins. En þegar hann nú er orðinn fær um að starfa fyrir land sitt og þjóð og vill fara að vinna öðrum til gagns, þá er hann settur upp í bókahyllu með 1800 króna launum. Er þetta sparnaður? Svarið því, góðir hálsar, sem sífelt eruð að nöldra um stofnun nýrra embætta. Hvað kostar mannslífið? Hvað kosta vonir manna og lífsstarf þeirra? Svarið því líka, þið reikningsfróðu menn?

Og nú vil jeg enn spyrja að einni spurningu. Hverjum datt í hug, þegar Háskólinn var settur á stofn, að hann ætti ekki fyrir sjer að stækka? Nei, það minsta, sem hugsanlegt er að gjöra, er að bæta við 2 mönnum á hverju fjárhagstímabili, sem kennurum við Háskóla vorn, svo framarlega sem hann á að halda áfram að stækka að nokkrum mun. Hverjum dettur í hug, að það sje sparnaður að geyma mann eins og dr. Ólaf Daníelsson í Kennaraskólanum ár eftir ár, í stað þess að nota vísindahæfileika hans til þess, að þeir komi að sem mestu gagni landi og lýð? Nei, jeg skal leyfa mjer að fullyrða það að það er miklu betra að steindrepa mennina með því að reka í þá hníf. heldur en að smámurka úr þeim lífið á þann hátt, sem nú er verið að gjöra, og láta þá eigi njóta hæfileika sinna.

Þá skal jeg að lokum geta eins í sambandi við þetta mál. Mjer finst, að það ætti að vera okkur Íslendingum metnaðannál, að styðja eins og við mögulega getum að vexti og viðgangi Háskóla vora. Okkur ætti að vera það metnaðarmál, að halda svo í heiðri minningu feðra vorra, að við látum ekki þennan litla vísi til vísindalífs í landinu verða okkur til skammar. Því hvað er það, sem hefir ráðið því, að við erum enn taldir meðal mentaðra þjóða? Ekkert annað en það, að forfeður okkar voru vísinda- og listamenn. Ef svo hefði ekki verið, þá værum við nú ekki sjerstök þjóð með sjerstökum þjóðareinkennum. Við værum nú vesöl fiskiþjóð og töluðum líklega blending af grænlensku og dönsku eða eitthvað enn verra. Og auk þessa: Hver veit, hve langt þess verður að bíða, að það verði látið í vogarskálina, hvort við nú getum talist mentaþjóð eða ekki? Það verður ef til vill við næsta friðarsamning ákveðið, hvort við eigum að renna saman við einhverja stórþjóðina eða hverfa í, þjóðahafinu og landið að verða lítilsvirt útver, eða við eigum að halda áfram að vera sjálfstæð mentaþjóð eins og forfeður vorir voru.

Það eru, sem betur fer, mjög margir Íslendingar, sem tala um Háskólann okkar með hlýleik, en þó vantar mikið á, að við berum allir þá ástartilfinningu í brjósti til hans, sem aðrar þjóðir gjöra til sinna háskóla. Ef einhver af þeim, sem nú hlustar á mál mitt, skyldi koma til Gautaborgar í Svíþjóð, þá taki hann eftir því, að hvaða mann, sem hann hittir í allri borginni, hvort sem er verkamaður eða lærður maður, stórkaupmaður eða fátæklingur, þá verður honum af þeim undir eins bent á, hvaða stofnun það er, sem hann fyrst af öllu verði að sjá í borginni, og allir munu benda honum á háskólann, og segja, að hann megi ekki fara svo, að hann sjái ekki þá stofnun. Gautaborg er stórborg, en jeg efast um að þar sje nokkur maður, sem ekki elskar háskólann; en eina og menn vita, hafa þeir Gautbyrgingar komið háskóla á fót hjá sjer fyrir skömmu, enda sýna Svíar það í verkinu, að þeir unna honum, því þeir hlaða yfir hann fjegjöfum.

Við Íslendingar erum aftur ekki eins heitir. Jeg man ekki eftir, að Háskólanum okkar nýja hafi verið gefið annað en það, sem einn borgari þessa bæjar gaf honum, daginn sem hann var settur á stofn, sem sjálfsagt er að minnast með þakklæti.

Jeg trúi því ekki fyrr en jeg má til, að þessum málum, um aukna starfskrafta við Háskólann, verði ekki vel tekið, og tel það víst, að svo ágætir fulltrúar, sem íslenskir kjósendur senda á þing, sjeu svo vel að sjer, að þeir viti, að þekkingin er veldi. Þeir hafa líka ljóst dæmi fyrir augunum, þar sem Þjóðverjar eru. Það er öllum mönnum auðsætt, að þeir væru fyrir löngu orðnir fjandmönnum sínum að bráð, ef þeir hefðu ekki haft veldi þekkingarinnar og vísindanna við að styðjast. Enda hafa Þjóðverjar lagt fram bæði fje og krafta, sem þeir frekast gátu, til þess að auka sem mest þekkinguna í landi sínu, og því eru þeir nú komnir það fram úr öðrum þjóðum, að þeir geta gjört brauð úr hálmi o. fl. þess háttar. Auðvitað þurfum við ekki að vænta þess, að við getum kept við Þjóðverja í vísindamensku, en því fyrr sem við byrjum að leggja rækt við vísindin, því fyrr getum við gjört kraftaverk.

Jeg hefi nú gjört grein fyrir skoðun minni, svo vel sem jeg get í stuttri ræðu, og hafi jeg farið með heimsku í nokkru, þá bið jeg hina vitru fulltrúa velvirðingar á því, og vænti þess, að þeir láti málefnið ekki gjalda þess.