23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2247)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Framsm. meiri hl. (Guðmundur Hannesson):

Jeg vona, að allir, sem lesið hafa nefndarálit meiri hlutans, hafi ljóslega sjeð afstöðu hans til málsins. (Margar raddir: Það er nú allerfitt). Meiri hlutinn leit svo á, að ekki væri fengin full vissa fyrir því, að þessar tilraunir kæmu að fullum notum. Líkindi töldu menn til þess, en auðvitanlega gat enginn sagt það með fullri vissu. En allir geta verið ásáttir um það, að þótt slíkar rannsóknir kæmu að eins að notum í fám greinum, þá geta þær margfaldlega borgað sig.

Öllum er það kunnugt, að maður sá, er menn höfðu ætlað þennan starfa, dr. Guðm. Finnbogason, er dugnaðar- og áhugamaður og hefir kynt sjer þetta mál allítarlega. Nefndin hefir viljað gefa honum tækifæri til þess að sýna, hvort þessar tilraunir hans geta orðið landinu að gagni, og vill þess vegna, að honum verði veitt í fjárlögunum ákveðin upphæð til þess, að hann geti fengist við þenna starfa og reynslan skorið úr því, hvert gagn að honum verður. En meiri hluti nefndarinnar vill ekki, að fjárveiting þessi sje skoðuð sem loforð um áframhaldandi fjárveitingu eða stofnun nýs embættis. Næsta þing verður auðvitanlega að meta árangurinn af starfi þessa manns og ráða því, hvort starfinu er hætt eða því haldið áfram í einhverri mynd, eða þá stofnað fast embætti. Reyndin á að skera úr því, hversu framvegis eigi með málið að fara, og ekkert annað.

Þetta er nú nefndarálitið. En annars voru skoðanir nefndarmanna í þessu máli mjög skiftar. Sumir töldu, að sjálfsagt væri að stofna nýtt embætti, sökum þess, að tilraunirnar hlytu að koma að miklu gagni, aðrir töldu mikla tvísýnu á því, að rannsóknir þessar kæmu að verulegum notum, og voru ófáanlegir til að fara lengra en að veita í þetta sinn fje til þessa í fjárlögunum, til reynslu. Úr því skoðanir voru svo skiftar, hlaut það að koma fram í nefndarálitinu. Samt kom meiri hlutinn sjer að lokum saman um, að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að Alþingi sjái sjer fært, að veita dr. phil. Guðm. Finnbogasyni 3000 kr. á ári í næstu fjárlögum 1916 og 1917, til vísindalegra rannsókna og tilrauna, til þess að bæta vinnubrögð í landinu, og að stjórnin jafnframt veiti honum lausn til bráðabirgða frá aðstoðarstarfi því, er hann hefir nú á hendi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Skal jeg leyfa mjer að afhenda hana hæstv. forseta með tilmælum um, að hún sje borin undir atkvæði að umræðunum loknum.

Jeg vil vekja athygli háttv. þingmanna á því, að svo er til ætlast, að embætti því, er þessi maður gegnir nú sem stendur, verði haldið opnu, svo að hann eigi kost á, að fá það aftur, ef þetta mál fjelli niður eftir komandi fjárhagstímabil.