23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Bjarni Jónsson:

Það eru að eins örfá orð. Jeg ætlaði, að það væri óþarfi að mæla nokkuð með því, í hvaða formi þessi fjárveiting væri veitt. En þótt jeg væri miklu mælskari og betur að mjer en jeg er, þá hefði jeg aldrei getað flutt betri meðmæli með frumvarpinu, heldur en háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Þess vegna ætla jeg að eins að gjöra grein fyrir atkvæði mínu.

Jeg þykist hafa sannað það fullljóslega, að þörf er á nýju kennaraembætti í heimspeki, af því að um fyrirsjáanlegan tíma verður ekki unnt að koma á kenslu við Háskólann í sumum fræðum, sem mest er þörf á við skólana, eins og í náttúrufræði o. fl., og í þeim fræðum mundi Háskóli vor, fjárins vegna, ekki geta kept við útlenda háskóla. En þessi háskóli getur orðið besti háskóli heimsins í þeim greinum, sem hægt er að iðka hvar sem er, eins og íslenskum fræðum, lögfræði og heimspeki. Í öllum þessum fræðum, getur þessi háskóli orðið jafngóður þeim, sem bestir eru. Nú er heimspeki svo víðtæk fræði, að enginn einn maður getur kent allar greinar hennar. Þetta hefi jeg sýnt fram á áður. (Guðmundur Eggerz: Það skildi enginn). Þá ræðu mína ljet jeg prenta, til þess að jafn sljóir menn sem háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) fengi numið rjettan skilning af. Sálarfræðin er nú komin í rjett horf, komin út úr metaphysikinni; því er full þörf á að hafa sjerstakan kennara þar. Nú vita það allir, sem þekkja þenna mann, dr. Guðmund Finnbogason, að hann er prýðilega hæfur til þessa starfs. Hann hefir sýnt það bæði í öðrum ritum sínum, og þó sjerstaklega í doktorsritgjörð sinni, að hann hefir sjálfstæða hæfileika til rannsókna. Þess vegna er hann sem sjálfkjörinn í embættið.

En meiri hluti nefndarinnar er nú ekki á sama máli um það, að þörf sje að stofna embætti í þessari grein. Nú þótt nefndarálit þetta sje ekki langt frá því, að minna mig dálítið á nefndarálitið í hjeramálinu sæla, þá fer mjer þó ekki eins og háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.), að jeg gangi í gegnum það og láti sannfærast, heldur lít jeg á málefnið. Háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) hefir farið í gegnum þessa ritsmíð nefndarinnar og mátti varla í milli sjá hvort ágætara væri í rökfimi, nefndin eða hann. En jeg vil ekki blanda mjer í þenna göfuga kappleik þessara andlegu skeiðhesta. En háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) segir, að nefndin hafi komist að annari niðurstöðu en hún hafi ætlað sjer. En þótt nefndin semji vitlaust nefndarálit og komist að vitlausri niðurstöðu, þá á það engin áhrif að hafa á sannfæringu manna í málinu. Hitt undrar mig ekki, að sami háttv. þingm. ætlar, að jeg þurfi tilsögn í 150 ár, því að jeg veit, að mjer veitti ekki af þeim tíma, og þó lengri væri, til þess að hugsa eins og hann. Og minnir þetta mig á kerlinguna, sem hrafninn keypti.

Dálítið þykir mjer það óviðkunnanlegt að heyra þingmann segja, að ekki sje eftirsjá að Íslendingum, sem burt fara af landinu. Ísland þarf allra sinna manna, ekki síst þeirra, sem góðir eru og líklegir til nytsemda, og því heldur, sem líklegt væri, að ella yrðu heimskingjarnir í meira hluta.

Nefndinni svara jeg því, að jeg ætla mjer að greiða atkvæði með dagskránni, þótt jeg telji það vitlausa leið. Þetta er þó betra en ekki, af því að jeg veit, að maðurinn muni verja tíma sínum vel. Heldur en að ekkert gangi fram, mun jeg því styðja dagskrána, og sannast þar, að sá vægir, sem vitið hefir meira, og vænti jeg, að nefndin láti sjer þær undirtektir lynda.