23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Sigurður Sigurðsson:

Það var einungis stutt athugasemd, sem jeg vildi gjöra. Jeg skal ekki fara neitt út í að tala um nefndarálitið, þótt mjer auðvitað finnist það kyndugt í mesta máta. Það minnir mjög á hjeranefndarálitið fræga frá í fyrra, því þar er alt tekið aftur í öðru orðinu, sem sagt er í hinu.

Jeg verð að álíta, að það sje ekki mikill munur á niðurstöðu nefndarinnar í þessu máli og frumvarpinu, sem ætlaðist til þess, að stofnað yrði nýtt, sjerstakt embætti við Háskólann í hagnýtri sálarfræði. Sje nokkur meining í þessari fjárveitingu, þá er auðvitað tilgangurinn sá, að halda áfram og stofna þetta embætti á næsta þingi. Hitt er annað mál, að háttv. framsm. nefndarinnar (G. H.) hefir lýst yfir því, að hann hafi enga trú á, að fjárveiting þessi komi að nokkru gagni, og er jeg þar alveg á sama máli.

Þá var annað, sem jeg vildi minnast á — og það var ástæðan til þess, að jeg bað mjer hljóðs, — og það er þessi rökstudda dagskrá, sem komið hefir fram. Mjer skildist svo, sem þeir, er greiða atkvæði með dagskránni, hafi með því skuldbundið sig til að greiða atkv., er til til þess kemur, með fjárveitingunni í fjárlögunum. Mjer virðist það óviðeigandi, að ofan á allar hinar ósvífnu »agitationir«, er beitt hefir verið í þessu máli, bætist það, að heil þingnefnd fari sjálf að »agitera« fyrir fjárveitingunni. Það er í mesta máta óviðeigandi og óþinglegt. Það hefði legið beinast við, að nefndin hefði tekið frumv. aftur, en aldrei borið fram þessa dagskrá, og þar með leitast við að binda atkvæði þingmanna í þessu máli.