23.08.1915
Neðri deild: 40. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

69. mál, hagnýt sálarfræði

Eggert Pálsson:

Þegar þetta mál var borið fyrst fram hjer í deildinni, þá virtist það liggja einkar ljóst og einfalt fyrir. Spurningin var, hvort deildin vildi hallast að því, að stofna kennaraembætti í hagnýtri sálarfræði hjer við Háskólann. Allir vissu, hver maðurinn var, sem þetta embætti var ætlað, og mjer virtist það vera eini ágreiningurinn, hvort stofna skyldi prófessorsembætti eða dócentsembætti. Mjer leitst svo á í byrjun, að það gæti komið til tals að stofna þetta embætti, sjerstaklega þegar tillit var tekið til þess, hver maðurinn var, sem það var ætlað. Það var og er öllum ljóst, að þessi maður mun standa mjög framarlega í vísindagrein sinni, sálarfræðinni, svo að Háskólanum hefði mátt vera sómi að því, að bæta honum við kennaralið sitt. Jeg leit svo á, að ef hann fengi þessa stöðu, eins og til var ætlast af flutningsmönnunum, þá gæti hann, jafnframt því að halda fyrirlestra við Háskólann, leiðbeint mönnum í svo nefndum vinnuvísindum, skrifað ritgjörðir og bækur, sem alþýða manna mætti hafa mikið gagn af að lesa. Jeg hjelt því, þegar málið lá þannig fyrir, að flytjendurnir myndu halda því fram með fullum krafti og einmitt á þessum grundvelli, og fann sjálfan mig ekki með öllu ótilleiðanlegan að fylgja málinu þannig, af því jeg tel manninn standa mjög framarlega í sinni vísindagrein, sálarfræðinni, og heimspekinni yfir höfuð. En nú sje jeg, að flytjendur frumv. víkja frá þeirri stefnu og beina málinu út í ógöngur og þoku. Í hvaða skyni þeir gjöra þetta, veit jeg ekki. En sje það gjört í því skyni, að veiða þeim mun frekar atkvæði, þá verð jeg að segja, að jeg tel þá aðferð algjörlega ranga. Menn verða að gjöra sjer ljóst, hvað hjer er um að ræða, sem sje nýtt heimspekisembætti, og vera annaðhvort með eða móti. Menn vita, að þessi maður er vísindamaður og vísindin eru hans starf, en hann dugar ekki til að fara út á land, eins og sumir virðast ætla, til að vinna almenna vinnu. Jeg álít, að það hefði getað komið að góðu gagni, að stofna þessa stöðu við Háskólann og styðja þar með að vísindalegri mentun, en hitt, að styrkja þenna vísindamann til að fást við vegavinnu, heyannir, róðra, fiskþurkun og þess háttar, sem hann getur ekki borið meira skynbragð á heldur en hver annar óbreyttur verkamaður, verð jeg að telja með öllu tilgangslaust. Þótt jeg kynni að hafa verið þessu máli fylgjandi í þeirri mynd, sem það kom fyrst fram í, þá get jeg ómögulega fylgt því á þeirri óhreinu leið, sem það nú er komið inn á. Mjer finst líka, að sú rökstudda dagskrá, sem fram er komin í málinu, sje ærið óviðfeldin að öðru leyti. Það er óviðfeldið, að ætla sjer að binda þannig fyrir fram atkvæði manna við fjárveitingu, sem seinna á að koma til atkvæða, eins og hjer er ætlast til.

Eins og málinu er nú komið, er það hvorki heilt hje hálft. Ef styrkveitingin nær fram að ganga, í því formi, sem farið er fram á með dagskránni, þá er málið algjörlega búið að tapa sínum vísindalega blæ. Þetta getur ekki talist vísindalegt starf, sem manninum er ætlað að vinna, þegar hann er ekki talinn fær um að kenna við Háskólann, en er í þess stað ætlað að fara út um sveitir og prjedika sín vinnuvísindi þar fyrir allri alþýðu manna. Jeg tel málinu víkja illa við, þegar það er komið á þann rekspöl, að farið er að veita styrk til þess í fjárlögunum, sem áreiðanlega verður ekki skoðaður öðruvísi af þjóðinni en sem hver annar bitlingur, sem þessum manni sje veittur til að lifa á. Af þessu leiðir, að málefnið verður áreiðanlega óvinsælt hjá þjóðinni. Jeg tel ekki ósennilegt, að menn hefðu gjarna viljað kynna sjer bækur og rit, sem þessi vísindamaður hefði skrifað, ef kennaraembætti hefði verið stofnað handa honum við Háskólann, en bitlingarnir eru svo illa liðnir hjá þjóðinni, að búast má við, ef málið nær fram að ganga í því formi, sem það nú er i, að þjóðin vilji ekki færa sjer í nyt leiðbeiningar þessa manns, jafnvel hversu góðar sem þær kynnu að vera. Og þá er verr farið en heima setið, ef þessi 3000 kr. fjárveiting yrði til þess, að þjóðin hefði horn í síðu þessa manns og þess málefnis, sem hún að öðrum kosti mundi hafa getað haft gott af.

Út af þessu vil jeg lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkvæði á móti hinni hinni rökstuddu dagskrá. En ef flutningsmennirnir vildu taka frumv. aftur upp á arma sína, með þeirri breytingu, að dócentsembætti skyldi stofna við háskólann, til þess að maður sá, sem hjer ræðir um, kendi þar sálarfræði, þá væri alt öðru máli að gegna. Þá mundi bæði jeg og aðrir geta forsvarað afstöðu okkar til þessa máls, þótt við greiddum því atkvæði. En eins og því er nú komið, sje jeg mjer engan veginn fært að vera því fylgjandi.