24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

74. mál, skipun prestakalla

Framsögum. minni. hl. (Bjarni Jónsson:

Það þýðir víst ekki mikið að hafa miklar umræður um þetta mál.

Jeg hefi borið það fram eftir almennri ósk kjósanda minna, sem telja að voði standi af því, hvað kláðinn útbreiðist nú á landinu. Jeg leitaði álits dýralæknis Magnúsar Einarssonar um þetta mál, og hjelt hann því fram, að okkur væri ekki vansalaust, að hafa nú verið að bagsa við að útrýma kláðanum nú um svo langan tíma og hafa aldrei notað neina skynsamlega aðferð til þess. En sú ein aðferð er skynsamleg, sem er nægileg til þess, að drepa maurinn. Þessi skoðun er svo rækilega framsett í bæklingi dýralæknis, að þá væri að bera í bakkafullan lækinn, að jeg færi að rekja þá skoðun hjer. Háttv. frsm. meiri hlutans (G. H.) fann að því við mig, að jeg skyldi fara að láta prenta þennan bækling. Jeg neita því, að jeg hafi gjört að nokkru rangt í því; jeg hefi ekki orðið var við að þm. lesi svo mikið slíka bæklinga eða bækur, að vanþörf virtist á að færa þær sem næst sjónum þeirra. Jeg skal játa það, að ekki muni stafa landshætta af því, að geyma þessa útrýmingarböðun, enda býst jeg við því, að maurinn verði friðaður nú í nokkur ár líkt og rjúpan.

Það er ef til vill þægileg meðvitund fyrir íslensku þjóðina, að vera að berjast við þennan kláðamaur, sem hún getur ekki sigrast á. Það er eins og þegar ágætar þjóðir eru að halda fram frelsismálum sínum einn daginn, til þess að víkja svo frá þeim annan daginn. Menn vilja framlengja lífið í þessum frelsiskláðamaur, og það er sögusögn þingmanna og annarra, að þeir hafi ágæt kynni af þessu dýri, sem kallast kláðamaur, telja það hótfyndni af mjer, að vera illa við hann, og ekki vert að vera að hrjá hann með tveimur böðum. Jeg vil þó geta þess, að þar sem mikill áhugi hefir sýnt sig víða á landinu á að útrýma kláða, þá sýnist ekki vera til of mikils mælst, að landið borgaði 30000 kr. einu sinni, til að gjöra þessa tilraun, einkum þegar þess er gætt, að landið hefir lagt sama kostnað á bændur á hverju ári til að bæta ullina á fjenu. Það er þá ekki djúpt rist til að taka þessa áhyggju af mönnum, ef menn vilja ekki leggja það á landið, að snara út einum 30,000 kr., til að útrýma þessari landplágu. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir kveðið um maurinn, sem lætur mennina baða en skriður svo á aðra. Til þess að venja hann af þeim óknyttum, væri ekki úr vegi að verja 30,000 kr. af landsins fje. En af því að maurinn er góðkunningi manna hjer í deildinni, skal jeg ekki halda langa ræðu. Þeir, sem fella þetta frumvarp, álíta víst, að það sje dýrtíðarráðstöfun að friða maurinn, en jeg ætla að standa við það með mínu atkvæði, að það eigi ekki að friða hann.

Jeg læt svo úttalað um þetta mál í lengd og bráð á þessu þingi. Landsbúar munu síðar fá tækifæri til að dæma um, hverjir sjeu hagsýnni fyrir landsins hönd, þeir, sem vilja drepa maurinn, eða hinir, sem vilja halda áfram að baða og láta hann skriða á aðra.