24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

74. mál, skipun prestakalla

Sigurður Sigurðsson:

Það er ekki til þess að biðjast griða, að jeg get þess hjer, að jeg er ekki allskostar ánægður með orðalag og forsendur nefndarálitsins. Skrifari nefndarinnar hefir ritað það út frá sínum hugsunum, en í aðalatriðunum hygg jeg þó, að hann hafi rjett fyrir sjer, og um niðurstöðuna er jeg honum samdóma.

Jeg skal kannast við það, að erfitt mun vera fyrir einn prest, að þjóna þessum brauðum, sem rætt er um að skifta sundur, sjerstaklega prestaköllunum þarna á Snæfellsnesi. En nokkuð mikið er sagt í nefndarálitinu, þar sem þess er getið, að prestsetrin sjeu víða mjög niðurnídd. Þetta má misskilja. En það er víst, að þótt mörg eða flest prestsetrin sjeu vel setin og mestu prýðisheimili, eins og t. d. á Breiðabólsstað í Fljótshlíð þá á það þó sjer stað — því miður, — að einstaka prestsetur eru illa setin, jafnvel ekki síst í því hjeraði, sem háttv. ritari nefndarinnar þekkir best til.

Háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) harmaði það mjög, hver andi væri í nefndarálitinu. Hann taldi fríkirkjur æskilegar, en vildi ætla, að meiri hlutinn væri þeirri hugmynd hlyntur, af því að hann hjeldi, að það yrði til eyðileggingar kirkju- og kristindómslífi. Háttv. þm. (E. P.) hefir engan rjett til þess, að koma fram með slíka fullyrðingu. Hann þekkir ekki hvatir okkar í þessu efni, og síst af öllu, að hann geti fullyrt, að við viljum skaða kirkju og kristindóm í landinu. Hann veit þvert á móti, að við meirihlutamenn í nefndinni vinnum að skilnaði ríkis og kirkju, til þess einmitt að bæta þetta hvorutveggja.

Aðskilnaður ríkis og kirkju hlýtur að verða til eflingar trúarlífinu, sem þjóðkirkjan er nú að smá eyðileggja. Það má líkja þjóðkirkjunni við stöðupoll, sem smátt og smátt fúlnar og gufar upp. Hjer þarf einmitt öfluga framræslu, til þess að koma straumhreyfingum í pollinn. Það þarf að hafa áhrif á menn og vekja þá af þessum andlega dvala. Og þessi vakning hlýtur að hefjast við aðskilnað ríkis og kirkju. Þar sem við nú lítum svona á málið, þá er þess ekki að vænta, að við viljum nú vera að grauta í prestakallalögunum og gjöra óverulegar breytingará þeim. Það gagnar ekki neitt. Það gjörir hvorki að glæða trúarlífið í landinu eða hjálpa mönnum inn í himnaríki.

Háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) hjelt langa lofræðu um presta þessa lands, og það að maklegleikum. Samt varð niðurstaðan sú, að hann hallaðist að tillögum meiri hlutans. Jeg get mjög vel skilið það, og vona, að sem flestir verði á því máli. Jeg er hræddur um, að verði farið að breyta gildandi prestakallalögum, að því er þessi prestaköll snertir, þá komi á næsta þingi kröfur um fleiri breytingar, og endirinn verði sá, að lögunum frá 1907 verði gjörbreytt, og mun þá margur segja, að ver sje farið en heima setið. Úr því, sem komið er, hygg jeg, að best sje, að lofa lögunum að standa óbreyttum, en fara nú sem rækilegast að vinna að aðskilnaði ríkis og kirkju. Og formælendur þeirrar stefnu og þess starfa ættu að sjálfsögðu að vera prestarnir.