24.08.1915
Neðri deild: 41. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

74. mál, skipun prestakalla

Framsögum. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg get verið háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) þakklátur fyrir það, hve vel hann tók í fríkirkjuhugmyndina, en hins vegar ekki fyrir það, hvaða hugsanir hann lagði í orð okkar meiri hluta nefndarinnar.

Það er ekki rjett, sem hann sagði, að út úr þeim skini það, að við viljum helst koma trú og kristindómi fyrir kattarnef. Hann getur ekkert um það dæmt, hvaða skoðanir við höfum í þessu efni. Hann þekkir ekki hugarfar okkar. En þar sem hann talar um meðferð pretsetranna, hvernig þau væru setin, þá er það auðvitað dagsatt, að mörg af þeim eru mjög sómasamlega setin, og var alls ekki nauðsynlegt að taka annað eins fram í nefndarálitinu. Það vita allir, og auk þess var ekki hætt við öðru, en að það myndi standa í Þingtíðindunum, því að nógir eru hjer til að halda því á lofti.

Þeir tóku báðir í sama streng, hann og háttv. framsögum. minni hlutans (St. St.), að þeim þótti einkennileg röksemdaleiðslan í nefndaráliti okkar, t. d. það, sem hjer stendur, og jeg leyfi mjer að lesa með leyfi hæstv. forseta:

»Þá mælir það ekki með fjölgun prestakalla, að sum prestsetrin úti um landið eru að lenda í algjöra niðurníðslu. Það er sárt að sjá bestu jarðirnar í sveitunum algjörlega vanræktar. Ef trygg ábúð yrði á jörðunum fyrir bændur, þegar prestarnir hafa ekki dug til að nota þær, eða flytja brauð úr brauði, og jarðirnar eru í þessu alkunna og illræmda millibilsástandi, þá mundi garðurinn verða betur setinn. En hjer er ekki hægt um vik undir þeirri löggjöf og þeim venjum, sem nú gilda um kirkjuna«.

Það er auðsjeð, að hjer vakir að eins það fyrir meiri hl., að jarðir níðast stundum við það, er prestar fara hvað eftir annað brauð úr brauði, svo að þær verða þá svo sem húsbóndalausar um langt skeið, og má þá nærri geta hvernig um þær fer. Nú er á hverju þingi verið að hugsa um það, hvernig eigi að sníða ábúðarlöggjöfina, svo að hún komi að sem mestu gagni jörðum landssjóðs, en hjer er einmitt, þar sem prestsetrin eru, verið að ræða um jarðir, sem oftast eru með þeim bestu í hverri sveit, svo að það skiftir miklu, hvernig með þær er farið, og það er ómótmælanlegt, að þær versna mikið víða fyrir þetta ferðalag prestanna, því að millibilsábúðin getur ekki orðið trygð, nema þangað til næsti prestur kemur, en það er í meira lagi óviss ábúð. Þessvegna er jörðunum enginn sómi sýndur. Það gæti jafnvel verið álitamál, hvort ekki væri rjett, að selja prestsetrin, til þess að tryggja sjer það, að vel verði með þau farið. Það eru til ýmsir prestar, sem ekki kæra sig um að flytja sig, heldur eira kyrrir í söfnuðum sínum til dauðadags, og um þá er auðvitað ekkert að segja, og það eru oft og tíðum nýtustu prestarnir, sem bæði láta sjer ant um söfnuð sinn og jörð, en því miður gengur það svo oft, að los vill verða á þeim eins og öðrum.

Mjer virðist nú annars fríkirkjumálið ekki koma þessu mikið við. Hjer er um það eitt að ræða, hvort bæta eigi við nýjum prestaköllum eða ekki, frá því sem er ákveðið í nú gildandi lögum, og það er í sjálfu sjer ekki svo vandalaust mál. Það fyrirkomulag, sem nú er, er bygt á niðurstöðu, sem milliþinganefnd komst að eftir ítarlegar rannsóknir, og jeg fyrir mitt leyti tel rjett, að halda sjer við það, þangað til næst verður gjörð gagngjörð breyting. Kákbreytingar á einstökum atriðum eru ekki annað en vandræðafálm, sem lítil trygging er fyrir, að sje á viti og sanngirni bygt.