07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

79. mál, hvalveiðamenn

Skúli Thoroddsen:

Jeg finn ekki ástæðu til að pexa við háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Málið er svo einfalt, að jeg verð að telja nefndarskipun alveg óþarfa.

Háttv. þm. gat þess, að jeg hefði — við 1. umr. um málið — búist við því, að frumv. yrði vísað til sjávarútvegsnefndarinnar. Þetta er rjett. En þegar jeg heyrði það á ýmsum, að þeim þætti óþarft að vísa málinu til nefndar, þá var eðlilegt, að jeg hallaðist þó á þá sveif, þar sem það og flýtti þó enn meira fyrir því. En skyldi deildin nú vera komin á aðra skoðun, og óska að setja málið í nefnd, þá mun jeg ekki setja mig á móti því, treystandi því þá, að nefndin hraði málinu, og gjöri sitt besta til að koma því áleiðis.

Hjer er um ofur einfalt mál að ræða, þ. e. að leyfa þessari einu hvalveiðastöð, sem eftir er, þ.e. hvalveiðastöðinni á Hesteyri, að halda áfram þau 6 ár, sem frumvarpið til tekur. Þetta er bygt á því, að hvalveiðastöð þessi hefir yfirleitt reynst hjeraðinu vel, og ummæli háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), sem hnigu í aðra átt, hljóta að byggjast á ókunnugleika. Hann var eitthvað að tala um úldið hvalkjöt, en hvalveiðistöðin, sem hjer um ræðir, hefir aldrei gefið mönnum kost á slíku kjöti. En þetta getur stafað af því, að háttv. þm. þyki, eins og sumum öðrum, best kjöt, þegar farið er að slá í það.

Að hvalveiðamenn á Hesteyri standi á bak við þessa áskorun, er mjer ekki kunnugt, en líklegt, að þeir vilji þó halda áfram, sem og eðlilegt er. Aðalþágan er hjá hjeraðinu, því að, eins og jeg skýrði frá við 1. umr., fiskveiðar hafa brugðist þar mjög um undanfarin ár, en vörur hækkað geipilega í verði, vegna ófriðarins, og má því vel skoða þetta frumv. sem eins konar dýrtíðarráðstöfun, að því er snertir þetta hjerað. Orðalagið vona jeg að ekki valdi misskilningi.

Ástæðulaust er að óttast það, að bátunum verði fjölga, því að hvalveiðarnar hafa eigi þótt bera sig svo vel. Sama er að segja um það, að þeir sæki veiði til Austfjarða. Bátar af Vestfjörðum fara fráleitt nokkru sinni lengra en til Siglufjarðar eða á móts við Grímsey.

Að hvalir hafi áhrif á síldveiðar, skal jeg ekki leggja út í að deila um við háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.). Jeg býst við, að við sjeum báðir jafn fróðir um það, og jafnvel fiskifræðingarnir sjálfir geti ekki skorið úr því. Ef síld hrekkur undan hvölunum, þá er engu vísara að hún leiti út á haf, heldur en inn á firðina eða eitthvað annað út í buskann.

Fleira þarf jeg ekki að taka fram. Ef deildin óskar að setja nefnd í málið, þá mun jeg ekki setja mig á móti því, þótt jeg telji það óþarft.