25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

79. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. meiri hl. (Matth. Ólafsson):

Jeg hygg, að þegar hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) leitar sjer upplýsinga um, hvaða útsvar hvalveiðastöðin á Hesteyri borgar, þá geti hann tregðulaust fengið að vita það. Verksmiðjan hefir um mörg ár verið útsvarsskyld, og útsvar hennar munar hreppinn mjög miklu.

Jeg þykist hafa sýnt fram á, að tjónið gæti aldrei orðið mjög mikið af að leyfa hvalveiðar á tveimur bátum. Setjum svo, að þeir öfluðu helmingi meira en hingað til, eða 80 hvali á 4 báta. Það verða 20 hvalir á bát. Ef maður gjörir ráð fyrir, að aflinn yrði svipaður næstu 3 árin, yrðu það þá 40 hvalir á ári, sem drepnir yrðu. Þó að það sje rjett, að viðkoman hjá hvölunum sje ekki mikil, þar sem hver hvalur á ekki nema einn unga, þá er hitt engu síður víst, að þrátt fyrir mjög mikið hvaladráp síðustu áratugina, þá er hvalurinn þó langt frá því að vera útdauður enn. Hvalirnir eru ekki staðbundin dýr. Þeir koma úr ytstu höfum, að sögn fróðra manna, utan úr Behringssundi og frá Japan og yfir höfuð úr fjarlægum og nálægum höfum.

Háttv. framsögum. minni hlutans (G. E.) bygði mikið á dr. Hjort í þessu efni. Hann sagði að hvalirnir stygðu síldina upp úr dýpinu, þegar þeir kæmu inn á firðina. Sje það rjett, þá er alveg eins hætt við, að þeir styggi síldina út úr fjörðunum eins og inn í þá.

Hann sagði, að það væri engin síldveiði í Jökulfjörðunum. Það er rjett, að þar hafa ekki verið notaðar síldarnætur, en þar á móti hafa þær um langan aldur verið notaðar inni í Ísafjarðardjúpi, og aldrei veiðst meira þar af síld, heldur en einmitt meðan hvalveiðarnar stóðu sem hæst. Jeg er ekki að þakka það hvalveiðunum, en það er áreiðanlegt, að þær skemdu ekki síldveiðina. Mjer er kunnugt um, að í suma Vestfirði koma hvalir svo að segja aldrei. Jeg man að eins eftir komu tveggja reyðarhvala inn á Dýrafjörð alla mína tíð. Þrátt fyrir það var þar oft og tíðum mikil síldveiði, og af því marka jeg, að hún sje ekki á nokkurn hátt bundin við hvalina.

Þó að prófessor Sars hafi talið það varhugavert, að eyðileggja hvalina, vegna loðnuveiðinnar, þá er ekki þar með slegið föstu, að hvalirnir hafi áhrif á fiskigöngur. Um það getur enginn maður sagt neitt með öruggri vissu. Það er því ekki gjörandi fyrir okkur, að byggja á því, sem Norðmenn gjörðu í þessu efni, því að hjá þeim var mikil æsing meðal fiskimanna á þeim tímum, vegna þess, að þeir hjeldu, að hvalveiðarnar spiltu fiskigöngum. Það hefir líka verið æsing í þessu máli hjá okkur. Um eitt skeið var háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.) eins heitur í þessu máli og háttv. 2. þingm. S.-Múl. (G. E.) er nú. En það var eðlilegt, að hann hyrfi frá þeirri skoðun, því að reynslan hefir kent honum, að sú skoðun var ekki rjett. Hann hafði áður farið að vilja kjósenda sinna, sem sjálfsagt hafa þá verið eins æstir í þessu máli eins og Austanmenn eru nú.

En það er annað, sem kann ske gæti verið dálítil mótbára. Það er einkarjetturinn til þessa eina fjelags. Það er ef til vill ástæða, en mjer finst hún þó vera næsta lítilfjörleg, þar sem þetta leyfi er bundið við 2 báta að eins í 3 ár. Jeg efast jafnvel um, að fjelagið vilji taka við því með þessum takmörkunum. En eins og bent hefir verið á, yrði það ómetanlegur skaði fyrir þessa tvo hreppa, ef hvalveiðarnar hættu á þessum slóðum, og hins vegar verð jeg að halda því fast fram, að þessir tveir bátar myndu ekki hafa mikil áhrif til að fækka hvölunum. Jeg efast um, að þar sæi högg á vatni. Og ekki gæti það á nokkurn hátt orðið til að spilla fyrir Austfirðingum, því að þar gætu hvalirnir óáreittir komið inn í firðina, eina og þeir hafa gjört.

Jeg vona, að háttv. deild taki þessu máli eins vel nú og við 1. umr., og lofi því að ganga áfram. Það getur ekki orðið til skaða á nokkurn hátt, en jeg þykist vera búinn að sýna fram á, að einum landshluta, sem er illa staddur, geti það orðið til mikils hagræðis.