27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

90. mál, forðagæsla

Framsm. (Guðm. Hannesson):

Jeg vil að eins gefa örstutta skýringu út af því, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) tók fram. Það kom til tals í nefndinni, og hún taldi það alveg sjálfsagt, að því væri þannig farið með það kornfóður, sem skepnum væri gefið í kaupstöðum, að það væri keypt smám saman. En nefndin leit engu síður þannig á, að heybirgðir gætu verið og væru oft alt of litlar, og þess væri oft minna gætt, af því að venjulega væri hægt að bæta úr því, með því að leita á náðir nærsveitanna.