16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

128. mál, rjúpnafriðun

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla ekki að þrátta um það, hvort löglegt sje, að taka frumv. þetta fyrir, enda er um það þarflaust að deila, því að forseti hefir ákveðið, að málið skuli tekið til meðferðar. En jeg tel það vel farið, að frumv. þetta er fram komið og vil mæla hið besta með því, að það nái fram að ganga.

Það er ekki af »drápgirni«, að jeg er hlyntur þessu frumv., heldur þykir mjer það koma illa við, að rjúpan skuli vera alfriðuð einmitt þetta ár, þegar kjöt er í afar háu verði og mikið er talað um kjöteklu í landinu. Algjörð friðun þetta ár er alsendis óþörf, því að nú er engin veruleg þurð á rjúpu í landinu, enda væri þá rjettara að alfriða rjúpuna heldur eitthvert af næstu árum, og þess mundu landsmenn fremur óska. Það er mjög undarlegt, ef menn vilja endilega halda því til streitu, að alfriða rjúpuna nú í fyrsta skifti frá því er landið bygðist, einmitt þegar skortur er á kjöti í landinu og verð á því hærra en dæmi eru til. Friðunartími rjúpunnar er svo langur, samkvæmt þessu frumv., að jeg get varla trúað öðru en það fljúgi gegn um deildina.