16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

128. mál, rjúpnafriðun

Einar Jónsson:

Mjer kemur það einkennilega fyrir sjónir, að menn skuli ætla sjer að forða því, að hungursneyð verði hjer í landi, með því, að ófriða fugla, og að þeir láti sjer detta í hug, að fuglakjöt geti komið að nokkru verulegu liði, er um þetta er að ræða. Mjer virðist það vera svipað því, að mönnum væri sagt, að hafa lambaspörð til eldsneytis. En einkennilegast er það þó, þegar þingmenn eru að tala um, að ófriða hrafna og uglur í þessu skyni, fugla, sem engum er kunnugt um, að nokkur Íslendingur hafi á æfi sinni lagt sjer til munns.

Jeg vil, að rjúpunni fjölgi, og þess vegna vil jeg, að frumv. verði felt, því að jeg er vís þess, að rjúpnadrápið kemur okkur ekki að neinu liði, til þess að afstýra hungursneyð, enda vonandi, að hún standi ekki nærri dyrum og aumingja rjúpan megi hafa sitt friðarár — eitt ár af hverjum 7 — ofsóknarlaust. Jeg vona, að háttv. flutnm frumv. verði þetta ljóst, þegar honum er bent á það, og haldi því ekki til streitu.