16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

128. mál, rjúpnafriðun

Einar Jónsson:

Það er svo undarlegt með mig, að jeg er svo vinfastur, að mjer þykir vænna um sessunaut minn en aðra, sem fjær eru. En þrátt fyrir þetta vil jeg ekki fallast á fjarstæður hans.

Þar sem hann segir, að hann vilji friða rjúpuna, þá hefi jeg bent á, að svo er í raun og veru ekki. En að honum þurfi að vera þetta áhugamál sjálfs sín vegna, eða hafi komið fram með frumv. af drápgirni, dettur mjer ekki í hug að segja, því að hann hefir væntanlega nóg fyrir sig, annað en rjúpnakjöt; væri enda jafn kjötlaus fyrir því. Og þar sem háttv. þingm. Mýr. (J. E.) segir, að nógur matur sje í aurunum, er fyrir rjúpuna fást, þá má auðveldlega snúa út úr þeim orðum hans, því að jeg býst við, að hann hafi aldrei borðað tvíeyring.

En vildi nú einhvern tíma svo ólíklega til, að háttv. flutnm. frumv. (J. E.) yrði staddur í kirkju og heyrði til aumingja rjúpunnar, sem verst væri útleikin eftir byssu veiðimannsins, þá er jeg vís þess, að honum myndi verða ilt innanbrjósts, fá reglulegt samviskubit af því, að hafa barist fyrir að ófriða hana. En af því, að mjer er vel við háttv. flutnm. frumv. (J. E.), þá vil jeg ekki fara frekar út í þetta, en sje það á öllu, að hann muni ekki þekkja mikið til rjúpnaveiða, hefir víst aldrei verið skytta og er víst klaufi yfir höfuð.