16.08.1915
Neðri deild: 34. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

128. mál, rjúpnafriðun

Björn Hallsson:

Þessar umræður eru orðnar einkennilegar, ekki síst á milli sessunautanna yfir í horninu.

Annars kemur mjer þetta frv. þannig fyrir sjónir, að það sje gott að flestu leyti. Það, sem jeg vil benda á, er, að rjúpurnar má nú skjóta frá 15. sept. til 1. febr., en samt með þeirri breytingu, sem á lögunum var gjörð 1913, að þá voru þær alfriðaðar 7. hvert ár, miðað við áramót. Jeg lít svo á, að þessi friðun á rjúpunni 7. hvert ár, komi að litlum notum, því að þar eð friðunin er bundin við áramót, þá er ekki hægt að segja, hvort rjúpan er skotin í desember eða janúar. Af því leiðir, að mjög auðvelt er að brjóta lögin, án þess nokkuð sje hægt við að gjöra. Jeg held menn hafi líka ekki fengist mikið um það síðasta vetur, þótt lögin væru brotin. En áður held jeg það hafi verið mjög lítið.

Þetta frumv. styttir tíma þann, sem rjúpur eru ófriðaðar þessi sex ár, en fellir á burtu 7. hvert ár, þannig, að þá megi drepa þær eins lengi og hin árin sex. Af því sem jeg hefi tekið fram, virðist mjer þetta alveg rjett stefna, og þess vegna mun jeg styðja þetta mál. Mjer finst jafnvel, að rjett væri að færa tímann lengra fram, færa hann fram í miðjan október, til þess ekki sje verið að drepa unga á meðan þeir eru í hópum. En samt gjöri jeg það ekki að kappsmáli og get jafnvel, til samkomulags, verið með því, að sett sje takmarkið 1. okt. til 1. febr. um ófriðunartíma.