21.08.1915
Neðri deild: 39. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

116. mál, sóknargjöld

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Nefnd sú, er sett var til þess, að athuga lögin um sóknargjöld, hefir leyft sjer að koma fram með þetta litla frumv., og það var samhuga ráð nefndarinnar, að bera fram þessa breyting á sóknargjöldunum. Nefndin leit svo á, að það væri of mikil íhlutun frá hálfu hins opinbera, að ákveða nokkuð um það, hvert lágmark skyldi á safnaðargjöldum. Hún áleit, að slíkt ætti að vera á valdi sjálfra safnaðanna, en engar skorður settar um það af löggjöfinni. Þetta getur heldur aldrei orkað miklum mismun. Lágmarkið er nú kr. 2,25, og sennilega er enginn söfnuður á landinu, er sjer sjer fært, að færa það lágmark niður til muna, eða afnema gjöldin í bráð. Og þótt sóknarmenn vildu færa það niður um eina krónu, þá ættu þeir að fá að vera sjálfráðir um það. Og hvað snertir þau trúarfjelög, er ekki standa undir vernd ríkisins, þá ættu þau að sjálfsögðu að fá að sigla sinn eigin sjó. Þetta mál er svo einfalt, að það þarf ekki skýringar við. Lög þessi hafa að líkindum verið sett til þess, að menn færu ekki úr þjóðkirkjunni, til þess að losna við gjöld sín. En mjer sýnist sem tæplega sje sæmandi fyrir hina evangelisku lútersku kirkju, að reyna til þess, að halda í menn þá, er ekki hafa meiri áhuga á málefnum hennar en svo, að þeir láta sig muna um hvort þeir eiga að borga krónunni meira eða minna, enda enginn ávinningur í slíku fyrir kirkjuna frá kristilegu sjónarmiði. Jeg vona, að háttv. þingmenn taki máli þessu vel og leyfi því að fara rakleiðis í gegn um deildina.