12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

39. mál, fátækralög

Jón Magnússon:

Jeg verð að játa, að jeg skil ekki vel, að svona frumv. skuli geta komið fram nú. Jeg get ekki betur sjeð en að það sje bein afturför, að fara nú að gjöra það að skilyrði fyrir sveitfesti, hvar menn hafi dvalið lengst. Það ætti öllum að vera skiljanlegt, að það er svo fjarri því að bæta úr því, sem nú er, að það er stórum til hins verra. Líklega væri það æskilegast, að þurfandi mönnum væri veitt hjálp þar, sem þeir eru, þegar þeir verða þurfandi. Ef það á að skera úr, hvar dvölin hafi verið lengst, hygg jeg, að oft geti orðið talsvert örðugt að upplýsa þetta, og verði enn meiri vafningar á sveitfestismálum en nú er. Jeg er ekki á móti því, að sveitfestistíminn verði styttur, því að það var tillaga mín á sínum tíma, að hann yrði ákveðinn 1 til 2 ár. En jeg er ekki viss um, að það sje til bóta, að færa tímann úr 10 árum í 5. Jeg vil ekki stinga upp á því, að þetta frumv. verði felt nú þegar, þótt það sje öfugt í meginatriðunum. Jeg leyfi mjer því að stinga upp á, að því verði vísað til 5 manna nefndar að umræðunni lokinni.