12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

39. mál, fátækralög

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg hefði helst óskað, að þetta frumv. yrði felt nú þegar. Þó er jeg ekki sjerstaklega mótfallinn nefnd, ef verða mætti, að hægt væri að laga það.

Jeg er á sama máli og háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.), að sú breyting, sem hjer er farið fram á, sje mikið til hins verra. En jeg hefi jafnan litið svo á, að því styttri sem sveitfestistíminn væri, því verra væri það. Hjer er farið fram á að stytta hann úr 10 árum niður í 5 ár. Það mun nú naumast skifta svo miklu máli fyrir sveitafjelögin, hvort hann er lengri eða skemmri, en það getur haft mikla þýðingu fyrir einstaklingana, því að það er vitanlega verra fyrir þá, því styttri sem sá tími er, sem menn skifta sjer ekki af þeim. Það er enginn vafi á því, að sveitastjórnirnar geta ekki að sjer gjört að fara að ýta af sjer fátækum mönnum þegar seinasta árið er komið, ef útlit er fyrir að þeir verði þurfandi. Með því móti gæti svo farið, að fátækir menn yrðu alveg friðlausir, og er því sjáanlegt, að fyrir þá eru 5 ár helmingi verri en 10 ár og 20 ár aftur helmingi betri.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) sagði, að það væri best, að menn fengju hjálp þar, sem þeir væru staddir, þegar þeir yrðu þurfandi. Það gæti orðið til þess, að menn ættu erfitt með að fá inni, því að það myndi verða amast við, að fátækir menn flyttu inn í sveitirnar. Það er áreiðanlegt, að ef það fyrirkomulag yrði lögfest, þá yrði þeim öllum mönnum, sem hætta sýndist á, að yrðu ósjálfbjarga, ómögulegt að fá inni í annari sveit; þeir yrðu að vera alla sína æfi þar, sem þeir hafa einu sinni lent. Það er leiðinlegt til þess að vita, hvernig fátækir menn eru hraktir sveit úr sveit, og hafa einmitt oft og tíðum farið á sveitina af því, að þeir hafa ekki fengið að vera kyrrir, eða fengið að vera lausir við afskifti sveitastjórnanna.