31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (2354)

129. mál, útflutningsgjald

Sigurður Sigurðsson:

Það geta víst allir tekið undið það með háttv. flutnm. (S. B.), að dýrtíð sje í landinu, sem stendur. Hann hefir safnað skýrslum um verðhækkun á ýmsum vörum, er sýna þetta, og eru þær að mörgu leyti fróðlegar. Þær sýna meðal annars, að flestar nauðsynjavörur hafa hækkað í verði um 30–50%, sumar meira og sumar minna. Á sumum nauðsynjavörum er hækkunin ekki ýkja mikil, svo sem fiski og steinolíu, en aftur er hún meiri á kolum. En í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að þó að þessi verðhækkun komi einna þyngst niður á kaupstaðarbúum, einkum daglaunamönnum og opinberum starfsmönnum, þá kemur hún jafnframt niður á sveitamönnum og öðrum, er þurfa að kaupa þessa hækkuðu vöru, svo sem kaffi, sykur, korn, kol, olíu o. s. frv. Þeir verða einnig að sæta hinni almennu verðhækkun. Meira að segja skal jeg geta þess, að margir bændur hafa selt svo mikið af ull sinni, að þeir verða að kaupa í fatnað sinn í kaupstöðunum. Jeg held því, að hv. flutnm. (S.B.) hafi litið nokkuð svart á ástandið í kaupstöðunum í samanburði við sveitirnar.

Viðvíkjandi frumv. á þgskj. 631 og seinna frumv. um dýrtíðarhjálpina, þá vil jeg taka undir með háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.), að mjer virðast þau koma of seint fram. Háttv. flutnm. (S. B.) kannaðist líka við þetta. En jeg fæ ekki skilið, hvers vegna þessi mál hafa þurft svona langan meðgöngutíma. Í byrjun þings var kosin dýrtíðarnefnd. Hún sat lengi á rökstólunum og afkastaði litlu. Margt af því, sem hún bar fram, var þess eðlis, að því var hollast að deyja sem fyrst.

Þessi tvö stórmál koma nú fram eftir dúk og disk, og ætti að afgreiða þau svo, að nokkur mynd væri á, þá veitti ekki af því, að framlengja þingið til septemberloka. Háttv. flutnm. (S. B.) mintist á bæði frumv., og vona jeg, að mjer verði leyft það líka.

Frumv. á þingskj. 632 gjörir ráð fyrir því, að allir þeir heimilisfeður, er hafa 2000 kr. eða minna í árstekjur, fái dýrtíðaruppbót. Jeg er ansi hræddur um, að erfitt muni að koma þessu í framkvæmd. Það er erfitt að rannsaka það, hverjir hafi þessar tekjur eða minni, svo að í nokkru lagi sje. Og ætti uppbótin að vera á nokkru viti bygð, þá er jeg hræddur um, að kostnaðurinn við að afla þessara upplýsinga og skýrslna mundi höggva mikið skarð í tekjurnar af tollinum, jafnvel svo mikið, að uppbótin yrði talsvert minni en til er ætlast. Mjer virðist það að öllu leyti langeðlilegast, að það væru vinnuveitendur, er veittu vinnuþiggjendum þessa uppbót með hærra kaupi. Það hefir líka verið gengið nokkuð inn á þá braut. Kaup verkamanna hjer hefir hækkað um 14 –15%, og það er óhætt að fullyrða, að sama er að segja um kaup kaupafólks til sveita. (Sveinn Björnsson: Vinnutíminn hefir verið styttur). Nei, grasleysíðu hefir verið víða svo mikið í sumar, að kaupavinnan við heyannir verður mikið lengri en venjulega, ef tíðin leyfir það. Það er því undantekning, ef fólk fer að koma úr sveitum nú. Það er ekki nema frá einstaka stað, þar sem heyskapur hefir gengið fljótt, eins og t. d. á Hvanneyri, sumstaðar í Ölfusinu o. s. frv.

Viðvíkjandi útflutningsgjaldsfrumv., þá virðist mjer, án þess að ganga inn á einstaka greinar, að samræmið í því sje ekki gott. T. d. skal jeg nefna, að það er gjört ráð fyrir 1 kr. gjaldi af hverri síldartunnu, en 3 kr. gjaldi af hverri kind. Á fiski er hækkunin kr. 1,30 af hverju skpd., en 10 kr. á að gjalda af hverjum útfluttum hesti. Þetta sýnir, að hlutfallslega miðað við verðmætið, er farið mikið lengra í því, að leggja á landafurðir en sjávarafurðir. En svo er annað. Þetta gjald getur orðið hið stakasta ranglæti á þann veg, að vörurnar falli í verði og að því leyti get jeg tekið undir með hv. þm. S.-Þing. (P. J.), að grundvöllurinn er óbrúkandi. Enn ber á það að líta, að margar vörur eru nú farnar út úr landinu, þar á meðal mikið af fiski, ull og hestum. Enginn veit, hvernig ástandið verður að ári; vörurnar geta lækkað í verði og alt horft öðru vísi við. Þannig getur bæði farið svo, að frumv. komi að engum notum, og líka hitt, að það skapi hið versta ranglæti. Yfirleitt verð jeg að segja það, að útflutningsgjald af vörum, er framleiddar eru í landinu, er ákaflega óviðfeldið. Það er hreinasta neyðarúrræði. Jeg veit, að mjer verður svarað því, að hjer sjeu bæði alveg sjerstakar ástæður fyrir hendi og svo sje gjaldið tímabundið, að eins til bráðabirgða. En hver getur fullyrt með vissu, að svo verði. Svo mikið er víst, að landssjóður þarfnast tekna í framtíðinni ekki síður en nú. Þegar ófriðnum linnir og verslunin kemst í betra horf, þá liggja fyrir þingi og þjóð margar nauðsynlegar framkvæmdir, sem nú verða að bíða. Af því leiðir það, að tekjurnar verður að auka, jafnvel hvað sem dýrtíðinni líður. Og hingað til hefir það gengið svo, að þegar einu sinni hefir verið búið að leggja einhvern toll á, þá situr hann vanalega fastur áfram, vegna þess, að nauðsynin krefst þess.

Jeg held, að það hefði farið fult eins vel á því, að flutnm. hefði tekið skattafrumvörpin frá 1908, sem voru hjer til umræðu á þingi 1912, fyrst honum er svona hugleikið að hitta landbúnaðinn í tollatillögum sínum.

Það er auðvitað ekki nema sanngjarnt, að þeir, sem orðið hafa fyrir höppum af ófriðnum, greiði eitthvað til almennra þarfa.

En það er alveg órannsakað, hverjir það eru, sem mest hafa grætt á ófriðnum. Það er sagt, að það sjeu framleiðendur, sjómenn og bændur. En mjer er spurn: Hafa ekki kaupmennirnir grætt líka? Það er víst lítill vafi á því, að gróði þeirra hefir verið mikill. Þeir notuðu tækifærið í fyrra, er ófriðurinn hófst, til þess að færa upp alla nauðsynjavöru, og græddu á því stórfje. Hitt skal jeg játa, að það er víst talsverðum örðugleikum bundið að ná í þenna gróða, enda hefir ekki verið reynt til þess. Annars held jeg að þessi ráðstöfun verði aðallega til þess, að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. Aðalgróðinn lendir hjá kaupmönnunum. Verð vörunnar hækkar hjá þeim, en lækkar hjá framleiðendum, því að það er segin saga, að þegar um tolla er að ræða, þá leggja kaupmennirnir meira á, en tollinum nemur, eða draga meira frá en útflutningsgjaldið er, til þess að sjá sjer borgið. (Sveinn Björnsson: Verðlagsnefndin). Jeg hygg, að hún hafi ekki gjört nein kraftaverk til þessa, og eigi ekki eftir að gjöra þau.

Að lokum skal jeg endurtaka það, að frumv. kemur alt of seint fram, og það er óforsvaranlegt, að ætla sjer að hrapa að jafn alvarlegu máli nú í þinglokin, og því er ekki um annað gjöra en að stytta því aldur sem fyrst.