31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

129. mál, útflutningsgjald

Einar Jónsson:

Jeg hefi orðið var við tvent mjög einkennilegt við þessa umr. Í fyrsta lagi frumv. nefndarinnar, hversu ósanngjarnt og illa til fundið það er, og í öðru lagi ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann talaði svo vel og ólíkt sjálfum sjer, að þótt hann ætti — og einkum ef hann ætti — enga aðra ræðu í þingtíðindunum, þá myndi hún verða honum til heiðurs og sóma.

En um frumv. er það að segja, að jeg get ekki skýrt það fyrir mjer, að það skuli koma fram í þessari mynd og bygt á svona grundvelli, á neinn annan hátt en þann, að nú standa kosningar fyrir dyrum, og þarf þá auðvitað hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) að reyna að vinna sjer fylgi við þær. Jeg get ómögulega skilið, að jafn skynugur maður og hann hefði getað komið fram með slíkt frv. annars. Fyrst og fremst er þar farið mjög skakt með niðurhlutun hundraðsgjaldsins á vörutegundirnar, t. d. er á sumar vörutegundir lagt 30% en aftur á aðrar ekki nema 5%, miðað við gangverð nú. Þarf þar síst að segja, að hrossum og lifandi fje sje gleymt. Á það er sjerstaklega lagður óhæfilega hár skattur, svo hár, að væntanlega treysta sveitamenn sjer ekki að samþykkja slíkt. Fleira mætti nefna af líku tagi, en mjer er illa við að taka það upp, sem aðrir hafa sagt, og háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir rjettilega fundið að mörgu.

Það er ekki rjett, að leggja þenna skatt á bændur nú, því að þótt þeir græði nokkuð á því, að innlend vara er í góðu verði, þá etur það sig upp að miklu leyti í verðhækkun útlendra vara og hverfur áður en varir. Og í fyrra, og fleiri undanfarin ár, liðu sveitirnar mikið tap, við fjárfelli og illan og ónógan heyskap, og hvar var þá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) með hjálpsemina í þeirra garð? Jú, jeg veit að menn áttu kost á smálánum, en það er engin veruleg hjálp, heldur að eins lítilfjörlegur greiði í bili. Jeg hefi oft tekið fleiri eða færri krónur til láns, og aldrei þótt nein ósköp, þótt jeg fengi það, enda ekki fundið til þess, að jeg yrði ríkari af því, enda hefi jeg alt af ætlað mjer að borga þá peninga aftur og gjört það.

Jeg hygg, að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) geti orðið alveg eins valtur og jeg og aðrir, þrátt fyrir þetta frumv. sitt; að minsta kosti verður það aldrei honum til heiðurs út um landið, og held jeg því, að best væri fyrir hann að taka það aftur. Menn græða á fleiru en dýrtíðinni, sumir t. d. á því, að eiga inni peninga í sparisjóði og gróðafyrirtækjum. Nú veit jeg fyrir víst, að þessi hv. þm. muni eiga all vöxtulega sparisjóðsbók. Vill hann borga dýrtíðarskatt af henni? Jeg er viss um að mörgum bændum þætti það tilvinnandi að borga hann, ef þeir væru svo staddir, en það eru þeir nú því miður fæstir.

Jeg segi þetta ekki fyrir mínar eigin sakir, því jeg get vel sjeð af nokkrum krónum í landssjóð, án þess að verða miklu fátækari eftir en áður, en mjer finst ekki vert að fara fram á það við bændur, að þeir fái ekki fult gjald fyrir vörur sínar, hvort sem þeir selja þær til háttv. 1. þm. Rvík. (S. B.) eða annara. Jeg skal svo ekki níðast lengur á þolinmæði háttv. deildar, og bíð reiðubúinn og ákveðinn eftir því, að greiða atkv. móti frumv. Svo vona jeg að fleiri háttv. þm. gjöri einnig.