31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

129. mál, útflutningsgjald

Eggert Pálsson:

Það er ekki hægt að tala um þetta frumv., sem fyrir liggur, nema í sambandi við frumvarpið, sem á eftir kemur. Enda gjörði háttvirtur flutningsmaður (S. B.) þeim jöfn skil í framsögu sinni. Svo framarlega, sem frumvarpið, sem á eftir fer, nær ekki samþykki deildarinnar, þá mun og þetta frumv. verða útilokað. Bæði eru fram kornin af dýrtíðinni svo nefndu. Að dýrtíð eigi sjer stað í landinu, því skal jeg ekki neita, að því leyti, að vörur hafa hækkað í verði. En að nokkurt harðæri eigi sjer stað, því neita jeg algjörlega. Enda væru þá flutnm. þessa frumv. í beinni mótsögn við sjálfa sig. Þeim mundi tæplega til hugar koma, að fara að leggja þungan skatt á landsmenn í harðæri. Þeir ganga einmitt út frá því, að nú sje góðæri, og þess vegna er mótsögn í því, að tala um ilt ástand í landinu yfirleitt. Það, sem gæti komið mönnum til þess, að vilja leggja á háa skatta nú, væri þröng landssjóðs. En við erum nú alveg nýskeð búnir að ganga frá fjárlagafrumvarpinu, og getum lítið breytt því, sem komið er, nú á síðustu stundi. Að vísu er töluverður tekjuhalli áætlaður, en þó er hann nokkrum skilyrðum bundinn, svo að minka má hann, ef í harðbakka slær, samkvæmt athugasemdum þeim, sem settar hafa verið við ýmsa hina stærstu útgjaldaliði. Sömuleiðis hefir mjer dottið í hug síðan, að við munum hafa áætlað ýmsa tekjustofna nokkuð lágt; t. d. var lausafjárskattur áætlaður hinn sami og síðast. Nú er, eins og tekið hefir verið fram af sumum háttv. þingm., ull og fjenaður, og yfir höfuð flestar framleiðsluvörur í ágætis verði, svo búast má við, að meðalalin verði miklu hærri en verið hefir í öllum sýslum landsins, svo að ábúðar- og lausafjórskattur muni jafnvel tvöfaldast. En til þess að vera viss um, að landssjóður komist ekki í þröng, þá hefi jeg ásamt með háttv. þingm. Dal. (B. J.) leyft mjer að koma fram með frumv. um stimpilgjald, sem er gamall góðkunningi Alþingis frá fyrri árum.

Ef tilgangur þessa frumvarps hefði verið sá, að bæta úr fjárþröng landssjóðs, hefði það átt að koma fram fyrr en nú. En sje aftur á móti meiningin sú, sem virðist liggja beint við, eftir frumv., sem á eftir fer, að dæma, að nota þessa peninga til að dreifa þeim strax út á meðal allra landsbúa sem dýrtíðarhjálp, þá má segja, að það hafi komið nógu snemma fram, því að jeg verð að neita því, að það sje enn sem komið er almenn dýrtíð í landinu eða neyð. Báðir aðalatvinnuvegir landsins eru í uppgangi, og vinnumenn og verkafólk hafa fengið hækkað kaup sitt að meira eða minna leyti. Vinnuveitendur allir veita þá kauphækkun ýmist af fúsum og frjálsum vilja, eða þá beint af nauðsyn. Það getur þannig ekki verið um neina neyð að ræða, nema á þeim fáu stöðum, þar sem menn lifa ekki á beinni framleiðslu, og jafnvel þar getur hún ekki almenn talist. Það getur ekki verið um almenna neyð að ræða við sjávarsíðuna, þar sem flutningsmenn frumvarps þessa fara fram á það, að hækka útflutningsgjald á sjávarafurðum. Sama er einnig að segja um landsveitirnar; þar telja flutningsmenn frumv. sýnilega enga neyð fyrir dyrum, þar sem þeir fara fram á nýjan skatt á því nær allar landbúnaðarafurðir.

Eftir því, sem frumv. ber þannig með sjer, geta flutningsmenn þess engan veginn talið ástandið almennt eða yfirleitt bágborið í landinu. Þvert á móti sýnast þeir telja það hvarvetna gott, nema að eins í kaupstöðunum, eða þar, sem ekki er lifað af beinni framleiðslu. En þó að einstöku staðir eða landshlutar eigi þannig við venju fremur erfiðar kringumstæður að búa, þá er slíkt engan veginn harðæri, heldur er það misæri. Það er rjetta nafnið. En slíkt kemur mjög oft fyrir. Það hefir t. d. oft komið fyrir, að afli hefir brugðist í einhverri veiðistöð, í Vestmannaeyjum, við Faxaflóa eða í Bolungarvík, þótt vel hafi fiskast annarstaðar. En mjer er spurn: Hefir þingið þá hlaupið upp til handa og fóta, og þotið til og samið lög, til þess að bæta úr slíku misæri? Nei, alls ekki. Sama máli er að gegna um landbúnaðinn. Þeir, sem hann stunda, verða oft fyrir óáran í þessum eða hinum landsfjórðungnum, þó vel ári í öðrum. Fje þeirra fellur oft í hörðum árum og rosar og óþurkar eða grasleysi gjörir það stundum að verkum, að bændur í þessum eða hinum landshlutanum geta ekki sett nema hálfan bústofn sinn á vetur. Ekki eru þá sett lög til að jafna úr misærinu, eða skattar lagðir á aðra landshluta. Þegar slíkt hefir komið fyrir, hefir þeirri reglu verið fylgt, sem líka er mjög sanngjarnt, að þeim hjeruðum eða sveitum, sem fyrir skakkafallinu hafa orðið, hefir verið veitt hjálp, með því að lána þeim fje með góðum kjörum. Þessari reglu ætti að fylgja, einnig í þessu tillfelli, ef svo færi, sem engan veginn er enn orðið, að veruleg neyð krefðist þess. Það ætti að veita þeim landshlutum, sem harðast kunna að verða úti, lán úr landssjóði. Menn kunna ef til vill að svara, að það sje ekki hægt, því að engir peningar sjeu til í landssjóðnum. En jeg held, að enn sjeu ekki öll sund lokuð í þeim efnum. Við vitum, að í fjárlagafrumv., sem enn þá er til meðferðar í þinginu, eru stjórninni heimilaðar nokkrar lánveitingar úr viðlagasjóði. Enn er því tími til að strika þær allar út, og heimila stjórninni, að verja því fje, sem handbært er í viðlagasjóði, til lána handa kaupstöðunum.

Jeg er líka hræddur um, að frumv. það, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) flytur um almenna dýrtíðarhjálp, mundi reynast illframkvæmanlegt, ef það yrði að lögum, ef ekki óframkvæmanlegt með öllu, sjerstaklega ef því eru engin takmörk sett, heldur ætti að ná til allra landshluta jafnt. Í fyrsta lagi mun erfitt að komast að raun um, hverjir ættu skilið að fá dýrtíðarhjálp, og sú rannsókn mundi verða dýr, eta upp mikið af þeim peningum, sem ætlaðir væru til hjálparinnar. Og í öðru lagi mundi dýrtíðarhjálpin alls ekki koma alstaðar sem rjettlátast niður.

Við höfum dæmin fyrir okkur, hvernig hefir farið, þegar gefins hjálp hefir verið útbýtt meðal almennings. Menn muna hvernig fór, þegar hallærisgjafirnar voru sendar hingað til landsins, að bróðurparturinn af þeim þótti lenda jafnt hjá ríkismönnum sem fátækum, eða jafnvel frekar. Eins mundi fara í mörgum tilfellum nú. Maktarmenn, hver í sinni sveit, mundu sjá um það, að þeir færu ekki varhluta af þessari almennu landssjóðshjálp.

Og hvað er svo fengið með frumvarpvarpinu? Jeg get ekki sjeð það, nema ef það væri það, að spilla mönnum og valda almennri og meiri óánægju í landinu.

En ef aftur á móti sú leiðin væri farin, að binda hjálpina við kaupstaðina eina, mundi það verða til þess, að aðstreymið þangað ykist enn þá meira. Menn mundu hugsa sem svo: Við skulum fara til Reykjavíkur eða Akureyrar, þá fáum við svo eða svo mikið ókeypis, og þurfum ekkert fyrir lífinu að hafa. Væri þá verr farið en heima setið að mínu áliti, því slíkt aukið aðstreymi fólks þangað, sem engin er framleiðslan og aðgjörðaleysíðu drotnar, getur engan veginn talist þjóðfjelaginu holt.

Þegar jeg þannig lít á bæði þessi frumvörp til samans, þá getur mjer ekki dulist, að í þeim kennir allmikillar mótsagnar. Það er mótsögn, að leggja á skatt, og borga hann svo aftur sömu mönnunum, sem hann er lagður á, eins og ætlast er til í þessum frumvörpum báðum. Slíkt getur því ekki með neinu móti komið til tals. Það verð jeg fyrir mitt leyti að telja hálfgjört óðs manns æði. En að leggja skatt á land- og sjávarsveitir, í því skyni einu, að hjálpa kaupstöðunum um alt það fje aftur gefins, sýnist mjer óviðeigandi og engin þörf á því, enn sem komið er. Það hafa verið misæri hjer á landi áður, og þá hefir verið bætt úr þeim með því, að veita hjeraðsstjórnunum hagfeld lán. Jeg tel það affarasælast, að hver bjargi sjer sem hann er maður til, án þess að þiggja beinar gjafir, enda hollast fyrir þjóðfjelagið í heildinni. Hjálp, sem er sama eðlis og sveitarstyrkur, getur ekki orðið til annars en að draga úr síðuferðisþreki þjóðarinnar og lama alla sjálfsbjörgunarfýsn og framfaraviðleitni hennar.

Og með alt þetta fyrir augum, mun jeg því greiða atkvæði á móti frumv. þessu, sem og, ef til kemur, frumv. því, sem á eftir fer.