31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

129. mál, útflutningsgjald

Sigurður Eggerz:

Jeg bjóst alt af við, að eitthvað fallegt kæmi út úr sorta þeim, sem hvílt hefir yfir Alþingi í sumar. Þetta fallega er nú að sýna sig. Tollafrumvörp drífa nú að úr öllum áttum. Þetta frumv., sem nú liggur fyrir, gjörir ráð fyrir 850 þús. kr. tollhækkun. Berum saman, hve tollarnir nema miklu eins og þeir eru nú áætlaðir í fjárlögunum. Útflutningsgjald er 150 þús. kr., tóbakstollur 210 þús. kr., vörutollur 375 þús. kr., kaffi- og sykurtollur 500 þús. kr. Alls nema tollar landssjóðs samkvæmt áætlun nálægt 1235000 kr. En þessi hækkun, sem nú er farið fram á, nemur um 850 þús. kr. eða ef til vill 1 miljón. Það sjá allir, að hjer er ekki um neitt smáræði að ræða. Eftir tollhæðinni að dæma, mundi málið hafa verið talið fult verkefni fyrir aukaþing, en nú er læðst inn með það rjett í þinglokin. Að vísu er ætlast til þess, að þetta verði að eins bráðabirgðatollur, en þeir, sem fylgst hafa með tolllöggjöf annara þjóða, vita það, að eins örðugt eins og er að koma á nýjum tollum, jafnerfitt er að koma þeim af aftur, þegar þeir eru komnir á á annað borð og menn farnir að venjast þeim. Vjer þekkjum dæmi frá sjálfum oss. Vörutollslögin áttu að eins að standa í tvö ár, en að þeim tíma liðnum kom engum annað til hugar en að framlengja þau. Það getur að því rekið, jafnvel eftir að stríðinu er lokið, að örðugt veiti að venja sig af þeim tekjum, sem þetta frumv. veitir, ef það verður að lögum.

Jeg er sannfærður um það, að þótt nú sje hin besta árgæska, þá muni heyrast hljóð úr horni, ef svona lögum er dembt á þjóðina fyrirvaralaust. Jeg er algjörlega sannfærður um það, að síst af öllu mundi þjóðin hafa búist við nýjum sköttum eða tollum frá þessu þingi.

Auk þess ber að gæta þess, að tollur, sem lagður er á svo undirbúningslaust og skjótlega, getur orðið mjög erfiður skattgreiðendum. Margir hafa keypt svo og svo mikið af fiski, sem þeir hafa þegar selt í útlöndum, og kemur því ekki til greina. En svo hafa ýmsir keypt fisk, sem þeir liggja með, án þess að hafa gjört ráð fyrir þessum tolli.

Vanalegur skipsfarmur er 3500 skpd. Tollhækkunin á fiskfarminum mundi því nema c. 5000 kr. Það er skiljanlegt, að það myndi verða óþægilegt fyrir útflytjendur að greiða þenna toll, er þeir höfðu ekki hugmynd um, þegar þeir keyptu fiskinn. Þetta er ekkert smávægisatriði. Sama er að segja um kjötið. Jeg verð auk þess að taka í sama strenginn og ýmsir háttv. þm., hvað bændur snertir; jeg er kann ske líka kunnugri kjörum þeirra en sjávarútvegsmanna. Mjer er kunnugt, að síðasta horfellisárið voru margir bændur sárt leiknir. Mörgum er ef til vill ekki kunnugt, hve erfitt fátækir bændur áttu þá. Stofn þeirra var aldrei stór, og þeir mistu margir mikið af honum. Þar á ofan bætist svo skuldin til kaupmanns fyrir fóðurbætirinn, sem þó ekki gat bjargað fje þeirra. Menn geta því farið nærri um, að bændum veitir sannarlega ekki af þessu góðæri, sem nú er. Og hvað snertir sjávarhliðina, þá verða menn að gæta þess, að þeir sem þar búa, finna líka til þess, ef tollar eru hækkaðir svo gífurlega, sem hjer er farið fram á. Væru nú þessir tollar lagðir á af þeirri ástæðu, að menn hjeldu, að ekki væri annars hægt að birgja landið að matvöru, þá væri það sök sjer. En það er ekki svo vel. Nei, 600,000 kr. eiga að ganga til uppbótar ýmsum mönnum Jeg tek það fram, að fyrsta boðorðið í þessari dýrtíð er, að sjá landsmönnum fyrir nægum vörum með hæfilegu verði í vetur. Þetta boðorð hefir verið rækt illa hingað til. Að vísu hefir mjer verið sagt, að stjórnin og Velferðarnefndin sjeu nú eitthvað farnar að hugsa um matvörukaup, og er það vel farið, og ætlar þá að rætast spá mín um, að þó þingsályktunartillaga mín um kornkaupin yrði feld, mundi hún þó ýta við samvisku stjórnar og Velferðarnefndar. En þessi tillaga var vitanlega feld af því að þm. V.-Sk. bar hana fram, feld af því, að jeg á ekki neinum sjerlegum vinsældum að fagna á »hærri stöðum«. (Sveinn Björnsson: Trúðleikur). Jeg býst nú við, að landslýður fari að skilja hvað það er, sem liggur á bak við stóru orðin hjá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hjer á þingi, svo jeg mun ekki kippa mjer upp við trúðleiksóp hans.

Svo jeg víki nú að síðasta frumv. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), þá finst mjer ekkert um það annað að segja en að það sje í hæsta máta broslegt. Allir þeir landsmenn, sem hafa 2000 króna tekjur og minna, eiga að fá hjálp af þessari tollhækkun háttv. þm. Fyrst og fremst verður líklega nokkuð erfitt að gjöra nákvæma áætlun um tekjuhæð manna í landinu yfirleitt, og gæti jeg trúað, að það vefðist dálítið fyrir stjórn og Velferðarnefnd. Í öðru lagi, þá er svo langt frá, að fjöldi þessara manna þurfi á nokkurri hjálp að halda. Og þegar litið er á þá hjálp, sem þeim er rjett, er í raun og veru eru hjálparþurfa, þá er hún 40–80 krónur. Er það ekki broslegt? Heldur háttv. 1. Rvk. (S. B.) virkilega, að þá dragi nokkuð verulega um þessa hjálp, sem eru í þröng. Ónei, sannleikurinn er sá, að ef á að hjálpa þeim, sem við skort búa, Þá dugir ekki að rjetta þeim 50 króna seðil og láta þá svo sigla sinn sjó. Og eins og háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) tók svo rjettilega fram, þá þurfa fæstir eða engir af þeim mönnum, er grætt hafa á landbúnaðinum í ár, nokkurrar hjálpar. Ónei, besta hjálpin fyrir fátæklinga er sú, að stjórnin sjái þeim fyrir kornvöru, sem seld sje með innkaupsverði, þegar harðna fer í ári. (Sveinn Björnsson: Hvað kostar það?). Ef keypt yrði kornvara fyrir ½ miljón, þá mundi það í viðbót við það, sem kaupmenn og kaupfjelög kaupa, reynast alldrjúg hjálp, þegar í vandræðin rekur.

Jeg skal ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu um þetta. En jeg er óbifanlega sannfærður um, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hristir höfuðið, er hann sjer þessi fáránlegu frumv. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) og þetta afskaplega tollfrumv. (Margir: Heyr!).