31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (2368)

129. mál, útflutningsgjald

Ráðherra:

Jeg vil taka í sama strenginn og háttv. S.-Þ. (P. J.), að hvernig sem maður lítur á þessi frumv., þá megi deildin ekki sýna flytjendunum þá óvirðingu, að fella þau frá nefnd. Nú er svo komið, að hjer eru á ferðinni í þinginu fleiri frumv., sem snerta þetta mál. Hjer í deildinni eru fram komin tvö frumv., annað um dýrtíðarskatt af tekjum, flutt af háttv. þm. Dal. (B. J.), og hitt um stimpilgjald. í Ed. er flutt frumv. um afnám tolla, og enn fremur eru á ferðinni hjer í þinginu tvö frumv. um dýrtíðaruppbætur. Jeg ætla ekki að fara út í neitt af þessum frumv., en mjer finst það sjálfsagður hlutur, að þingið athugi þau í ró og næði. Það hefir kent nokkurs ofsa í umræðunum, en það er fyrst og fremst aðgætni og athugun, sem hjer þyrfti að komast að. Þar með er ekki sagt, að jeg sje að öllu leyti samdóma öllu því, sem í frumv. stendur, þótt jeg leggi til, að þau sjeu rólega athuguð, en það mætti sjálfsagt úr þeim öllum búa til eitthvað nýtilegt. Jeg gæti hugsað mjer, að menn gætu vel samþýtt hagsmuni, eða rjettara sagt óhagsmuni margra, svo að flestir mættu vel við una, ef menn á annað borð álíta nauðsynlegt, að afla landssjóði tekjuauka. Ef menn líta ekki svo á, þá er hægt að losna við frumv.

Ef Nd. kýs nefnd í málið, þá væri gott að sú nefnd bæri sig saman við við nefndina í Ed., því að annað frv. fer fram á hækkun, en hitt á lækkun. Það dugar ekki, að afgreiða lækkunina, án þess að eitthvað sje gjört til að vega þar í móti.