31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

129. mál, útflutningsgjald

Bjarni Jónsson:

Það er að eins örstutt athugasemd.

Mjer skilst það vera rjett, að líta svo á, sem þetta mál sje komið frá nefnd, og þegar svo stendur á, er ekki vani, að setja nýja nefnd í málin. Það er komið frá Velferðarnefndinni, og þótt hún sje ekki sjerstök þingnefnd, þá er hún þó kosin af þinginu í þetta mál alt.

Rjettast væri fyrir Velferðarnefndina og stjórnina, að taka nú þessi mál út af dagskrá og koma svo með eitthvað svipað því, sem hæstv. ráðherra sagði, að niðurstaðan gæti orðið. Það má eflaust sjóða upp úr þeim eitthvað nýtilegt, sem allir gætu gengið að. Jeg vil því mælast til þess, að hv. Velferðarnefnd taki málin út af dagskrá og athugi þau betur, og leggi þau síðan fyrir deildina á ný í breyttri mynd.