01.09.1915
Neðri deild: 48. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

133. mál, stimpilgjald

Skúli Thoroddsen:

Jeg vil að eins geta þess, að undanfarið hefi jeg yfirleitt verið beinum skattaálögum andvígur, og því er jeg því algjörlega mótfallinn, að stimpilgjald sje lögleitt hjer á landi. —

Ástæðan til þess er sú, að stimpilgjaldið gjörir alla samninga að miklum mun örðugri, og fyrirhafnar meiri, en ella, og jafnframt því kostnaðarsamari.

En við eigum ekki að gjöra leik að því, að torvelda viðskifti manna — eigum miklu fremur að kappkosta, að gjöra þau sem allra óbrotnust og vandaminst.

En vjer megum eiga það vist, að hjer fer, eins og í öðrum löndum, þar sem slík lög hafa verið gefin.

Ákvæðin reynast, er til framkvæmdanna kemur, engan veginn svo skilmerkileg, að ekki rísi þá upp ágreiningur, um hitt eða þetta, þ. e. um það, undir hvern flokkinn það eða það heyri o. s. frv., og eftir nokkur ár verður þá kominn heill bunki af stjórnarúrskurðum ef eigi og dómum, sem menn þurfa þá og að þekkja, engu síður en lögin sjálf.

Alt þetta eykur þá alþýðumönnum, og fjöldanum öllum ekki lítinn kostnað, og fyrirhöfn, og fæstir, sem geta þá treyst sjer, eða komist af, án lögfræðilegrar aðstoðar.

Það, að lögleiða stimpilgjöldin hjer á landi, gjörir því öll viðskifti manna enn örðugri en nú eru, og alt það vafstur og óþægindi, sem þar af leiðir, yrði þá og ekki metið til peninga.

Almenningi yrði það þá ekki einungis jafntilfinnanlegt, heldur jafnvel miklu tilfinnanlegra en sjálfur skatturinn, og greiði jeg því hiklaust atkvæði gegn frumv.