11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

133. mál, stimpilgjald

Framsögum. minni hl. (Eggert Pálsson):

Minni hl. þykist ekki þurfa að tala langt mál með þessu frumv., því að það vill svo vel til, að framsm. minni hlutans er sá sami, sem var annar flutningsm. frumvarpsins, þegar það kom fyrst hjer inn í háttv. deild, og gjörði hann þá þegar grein fyrir því, af hverjum hvötum það væri fram borið. Þær eru þær, að hjer sje um gjald að ræða, sem tiltækilegt sje að leiða í lög, þar sem þörfin er svo mikil, sem allir vita, fyrir tekjuauka, þótt ekki sje meira en þetta. Það mun hafa verið gjört ráð fyrir því af skattanefndinni 1907, að þá mundu fást með þessu frv., ef það yrði að lögum, 25 þús. kr. tekjur í landssjóð á ári. Og þótt það yrði ekki meira nú, sem upp úr stimpilskatti fengist, sem verður að teljast heldur lítið í lagt, eins og nú horfir við, árið 1915, þá er það ekki ólíklegt, að þessar skatttekjur yrðu nú heldur rífari, eftir því, sem viðskiftin aukast og framfarirnar í landinu yfirleitt. En þótt þótt þær aldrei yrðu nú meiri, segi jeg, en skattanefndin áætlaði, þá nema þær þó 50 þús. kr. á fjárhagstímabili, og það er þó svo mikið, að alt af ætti að mega koma einhverju þjóðþrifa fyrirtæki á fót fyrir það á hverju fjárhagstímabili.

Okkur, minni hl., hefir ekki getað skilist það, að ekki sjeu sömu ástæðurnar fyrir hendi nú, eins og þá er skattamálanefndin lagði til, að þetta gjald yrði lögleitt; og við höfum ekki getað sannfærst um það, á þessum stutta tíma, að nokkur veruleg hindrun hafi getað komið í veginn fyrir það, að það nái fram að ganga. Milliþinganefndin frá 1907 áleit það tiltækilegt þá, og síðan hafa engar breyttar kringumstæður orðið, sem geti gjört það ókleift, svo að ef ekki má samþykkja það nú, þá hlýtur skattanefndinni frá 1907 að hafa skjátlast mjög svo átakanlega.

Við verðum því eindregið að leggja það til, að frumv. verði samþ. nú. En hins vegar höfum við leyft okkur að ráða til, að á því verði gjörðar ofurlitlar breytingar. Við leggjum sem sje til, að strikuð sjeu út úr 4. gr. tvenns konar brjef, sem þar standa meðal þeirra, er ætlast er til að ½% sje goldið af, sem sje erfðaskrár og byggingarbrjef jarða, og að þau sjeu flutt yfir í 6. gr., undir þau brjef, sem greiða á af föst, ákveðin gjöld.

Okkur þykir það hart, að heimta ½% af hverju byggingarbrjefi, þar sem þau eru skjöl, sem búast má við, að oft þurfi að endurnýja, og þótti okkur því rjettara, að af þeim væri fast gjald, og stingum upp á, að það sjeu 10 kr. í hvert sinn, en 20 kr., ef jarðarleigan fer fram úr 3000 kr. á ári. Og sama viljum við að gildi um arfleiðsluskrár og dánargjafa o. s. frv. Þetta eru nú aðal breytingarnar, aðrar en sú, sem er 3. liður á þgskj. 859. Þar er farið fram á það, að stimpilgjald sje einnig lagt á víxla, sem ekki er gjört í sjálfu frumv., og álítum við það hóflegt, að hafa það 25 aura á hálfsmánaðar víxla undir 1000 kr., en 40 aura á þá, sem eru þar yfir. Það kann nú að vera álitamál, hve hátt eigi að hafa þetta gjald á víxlum, en hitt sýnist ekki rjett, ef á að leggja á stimpilgjald á annað borð, að sleppa víxlum alveg við það, enda má fá af þeim talsverðar tekjur, jafnvel þótt gjaldið sje vægilega til tekið.

Það er nú til tekið í lögunum um Íslandsbanka, að hann skuli undanþeginn stimpilgjaldi, þótt það kynni að verða sett hjer í lög síðar, og hlýtur það ákvæði auðvitað að standa óhaggað, en þá fanst okkur jafnframt sjálfsagt, að Landsbankinn nyti sömu rjettinda, og að því hnígur 4. brtt. 5. brtt. er ekki nema sjálfsagt ákvæði, um það, hve nær lögin eigi að ganga í gildi.

Það er nú á valdi hv. deildar, hvort henni sýnist að innleiða þenna skatt eða ekki. Jeg þykist hafa nokkurn veginn ljósa hugmynd um það, að ef ekki þykir fullkomin ástæða til þess nú, þegar þörfin á tekjunum er svo rík, þá muni hann aldrei verða að lögum. Það virðist því vera annað hvort að hrökkva eða stökkva nú með þetta frv.