11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

133. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Mjer kemur ekki á óvart ræða háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), því að jeg þekti afstöðu hans í nefndinni. Það er að eins þessi stefna, sem mjer þykir dálítið brosleg, að nú höfum við setið hjer í 2 mánuði, og aldrei talað um nokkurt mál svo, að ekki hafi um leið verið farið að fáta um fátækt landsins og það, hve óvarlegt sje, að ráðast í hitt og þetta; um tekjuhallann og um öll þau gjöld, sem stofnað sje til með öðrum lögum en fjárlögunum. En svo er hins vegar hvert eitt og einasta tekjuaukafrumv., sem býðst, skorið niður vægðarlaust, eða því er þá vísað til stjórnarinnar, til þess að hugsa um það þangað til einhvern tíma. Og mjer heyrðist háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) lýsa yfir því fyrir hönd alls Heimastjórnarflokksins, að hann væri móti því, að þetta frumv. yrði að lögum. (Pjetur Jónsson: Nei, eingöngu fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar). Jæja, þá bið jeg hann fyrirgefningar og vona þá, að flokkurinn snúist ekki gegn frumvarpinu.

En annað er þó ef til vill undarlegra en þetta alt saman, og það er að standa hjer og segja að málið sje illa undirbúið, þar sem það er tekið eftir tillögum milliþinganefndar, sem þessi háttv. þm. átti sæti í sjálfur, og má því best vita, hversu samviskusamlega gengið hefir verið frá þeim og öðrum tillögum hennar. Jeg fyrir mitt leyti vona, að hún hafi ekki kastað höndunum til þess, því að nefndarálit hennar var eitt hið rækilegasta, sem hjer hefir sjest; það má hún eiga. En þar að auki var og tækifæri til að laga frumv. í nefnd nú og nægur tími til að koma með brtt. Við erum varla svo nærri heimsenda nú, að þingið hefði ekki getað gefið sjer tíma til að ræða til fullnustu tekjuaukafrumv., sem fram átti að ganga; fyrir það hefði víst enginn vábrestur orðið í tilvistarsögu þessa lands eða heimsins. Til þessa væri jafnvel tími enn þá, og háttv. þm. veit það vel, að minni hl. hefir ætið tekið tillit til allra athugasemda, sem hann hefir komið fram með á nefndarfundum, eins og sjá má af brtt. Það er því rjett hjá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að það er gjörsamlega ástæðulaust að tala um það, að frumv. skorti undirbúning, því að það má einmitt segja, að mjög fá frumv. hafi verið jafn rækilega undirbúin og þetta. Og þó að einhver galli kynni nú samt sem áður að vera á því, sem laga þyrfti, þegar það kæmi í framkvæmd, þá verður ekki sagt, að það sje í fyrsta sinn í þingsögu Íslands, að fram hafi komið frumv. um breytingar á tiltölulega nýjum lögum. Mig minnir, að það hafi ósjaldan borið við, og væri ekki svo voðalegt, þótt þess þyrfti við í þessu efni, þar sem hjer er um algjört nýmæli að ræða í íslenskri löggjöf.

Og til stjórnarinnar finst mjer líka skringilegt að vísa þessu máli. Það er orðið engu líkara en að ekkert þing sje til, heldur bara stjórnin ein, og hún á að vita alt og gjöra alt. Á þessu þingi er búið að vísa til hennar sjálfsagt einum 10 málum, og sjálf er hún farin að sárkvarta yfir þessu, og veit ekki hvar hún á að fá starfskrafta, til þess að karra alt það, sem þingið fleygir í hana hálf- eða ókörruðu. (Hannes Hafstein: Hún er eins konar drekkingarhylur fyrir málin). Alveg rjett, og þegar svo er komið, þá skilst mjer það vera nokkuð sama, hvort máli er vísað til hennar, eða það er drepið. Þess konar banatilræði er nú sýnt svo að segja hverju einasta tekjufrumv., svo að á endanum verður víst ekkert annað eftir í þinginu, en tekjuhallinn og öll »lóma«-sýkin, sem gripið hefir svo marga háttv. þm.

Hið eina rjetta er að samþykkja þetta frumv., en hins vegar erum við enn sem fyrri þakklátir fyrir góðar bendingar til bóta á einu og öðru í því, þar sem okkur kann að hafa yfir sjest. Það er vegur, sem þinginu er samboðið að fara, en hitt ekki, að vísa málinu í drekkingarhylinn hjá stjórninni, eins og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) komst svo vel að orði.