11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

137. mál, dýrtíðarskattur af tekjum

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg vil að eins lýsa yfir því, að orð mín fyrst í nefndaráliti minni hlutans eiga við það, sem mjer hafði skilist á mönnum í nefndinni. Hefði jeg sjeð nefndarálit meiri hlutans, áður en jeg samdi mitt nefndarálit, hefði orðin fallið á annan veg, en því var ekki að heilsa, af því að það nefndarálit kom ekki fram, fyrr en í dag.

En þótt hv. þm. S.-Þing. (P. J.) og meiri hl. nefndarinnar hafi þótt ástæða til, að stjórnin ljeti athuga skattamál landsins, þá þarf ekki að hafa þetta frv. að yfirvarpi.

Háttv. þingmaður S.-Þing. (P. J.) hefði getað komið þessu að engu síður. Hann hefði getað komið fram með það í tillögu til þingsályktunar, að kosin væri skattamálanefnd. Hefði sú nefnd einnig getað athugað stimpilgjaldið.

Og jeg vil að síðustu geta þess, áður en síðasta hurð er lokuð fyrir þessu frumv., að þessi skattur, sem jeg er með, er tekjuskattur, er á að gilda að eins um stundar sakir, en á ekki neitt skilt við almennar tekjur eða skatta.

Jeg hefi að öðru leyti ekki fleiru að svara; en viðvíkjandi því, að þessi lög sjeu óframkvæmanleg, þá er undarlegt, að það hljóð skuli koma úr þeirri átt, er hefir svo mikla tröllatrú á stjórninni, að vilja helst vísa öllum málum til hennar. En jeg ætlaði, að það væri ekki ofætlun ungum og hraustum manni, eins og sá er, sem hefir stjórnina á hendi, að krefja þennan skatt. (Ráðherra: Ætlast háttvirtur þingm. Dal. (B J.) til, að stjórnin innheimti skattinn?). Jeg veit ekki, hvað þessi háttv. þm. (E. A.) ætlast til að stjórnin gjöri, en hingað til hefir háttv. 2. þingm. Árn. (E. A.) borið fult traust til núverandi stjórnar, og kemur mjer því á óvart, ef hann treystir henni ekki til að inna þau störf af hendi, er henni ber.