11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsögum. minni hl. (Eggert Pálsson):

Það er rjett, að ekkert nefndarálit er komið frá minni hlutanum. Það má kann ske segja, að það sje bættur skaðinn, þó að það sje ekki komið fram, því að við, minni hlutinn, höfum ekki sjeð álit meiri hlutans fyrr en nú, og því eigi haft tíma til að rökræða frumvarp þetta við hann. Við höfum því lagt til, að frumvarpið verði felt.

Meiri hlutinn skrifar langt mál um það, að dýrtíðarhjálpin sje ekki á rökum bygð, og jeg er honum sammála um það, að mikils til ofmikið er gjört úr dýrtíðinni og hennar illu afleiðingum, og vil þess vegna ekki leggja skatta á landið.

Jeg er einnig samþykkur meiri hlutanum um, að engin vandræði sjeu enn þá orðin í landinu. Hvað síðar kann að verða, veit enginn, nema forsjónin ein. Aðstaða manna í lífsbaráttunni er misjöfn nú, eins og endranær, og þess vegna engin sjerstök ástæða nú til að þjóta upp með vanhugsuð lög. Jeg kannast við, að meiri hlutinn hefir lagfært frv. mikið með brtt. sinni.

Jeg veit ekki, hvort meiri hlutinn hefir tekið það fram í áliti sínu, sem jeg benti á í nefndinni, að það væri aðgæsluverð leið, að gefa öllum almenningi opna leið til þess að fara í vasa efnaðri mannanna. Hjer í Rvík þyrfti ekki annað en að »tromma« saman borgarafundi, og heimta það af bæjarstjórninni, að hún legði há aukaútsvör á efnamennina. Það er auðvitað ekki nema gott og fagurt, að leggja fram fje til nytsamra fyrirtækja.

Hitt atriðið, þar sem meiri hlutinn leggur til, að fátæklingum sje úthlutað matvælum og eldsneyti, þá er það ærið gott og fallegt, því að þá fáu aura, sem þeir geta unnið sjer inn, geta þeir þá notað til annars, fræðslu eða skemtana.

Eitt atriði í þessu máli hefi ekki verið athugað. Það er meiningin, hefir mjer skilist, að þessi dýrtíðarhjálp sje ekki skoðuð sem sveitarstyrkur. En hvað hugsa þá háttv. flutningsmenn frv. um þá menn, sem þegar hafa þegið af sveit? Ef sá styrkur á að skoðast sem sveitarstyrkur, þá eru þeir beittir misrjetti. Því þegar öðru fólki er ekki reiknaður styrkurinn sveitarstyrkur, þá er þeim reiknaður allur sá styrkur, sem þeir þurfa, sem sveitarstyrkur. Allir sjá, að þetta er misrjetti. Nei, það á að draga það frá, sem er fram yfir venjulegan sveitarstyrk, og skoða það sem aðra dýrtíðaruppbót. Það liggur í augum uppi, að þeir, sem þiggja af sveit, þurfa hærri styrk nú en áður, niðursetningar hærra meðlag. Það er því ekki rjett, að skoða alt það sem sveitarstyrk, sem þeim er lagt til. Jeg veit ekki, hvort háttv. flutningsmenn hafa athugað þetta, en jeg ber gott traust til þeirra til að sjá um, að sveitarómagar og þeir menn, sem sveitarfjelagið styrkir, sjeu ekki beittir misrjetti.