13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsögum meiri hl. (Þórarinn Benediktsson):

Meiri hluti nefndarinnar hefir komið fram með eina brtt. við þetta frumv., og þarf hún ekki útskýringar við. Hún er að eins leiðrjetting á því, sem fjell burtu við 2. umræðu málsins, úr hinu upphaflega frumvarpi. Gat jeg þess við 2. umr., að nefndin mundi leiðrjetta þetta við þessa umræðu málsins. Nefndinni er ekkert kappsmál um þessa breytingu, en telur þó rjett, að hún komist að.

Þá hefir einnig komið fram brtt. frá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.). Hún kom fyrst fram við 2. umr. þessa máls, en var þá tekin aftur, því að ekki var búist við, að hún fengi mikinn byr. Nú er þessi brtt. komin fram enn í ofurlítið breyttri mynd, en kjarninn er sá sami, nefnilega sá, að landssjóður leggi fram l/2 kostnaðarins, og þó ekki meira en 2 kr. á hvern íbúa. Við nefndarmenn viljum ekki ganga inn á þessa breytingu á frumv., af hvaða ástæðum vita allir, sem lesið hafa nefndarálitið, því að þar er stefna okkar skýrt tekin fram. Sú stefna, að ekki eigi að nota fje landssjóðs til annars en þess, að afla landinu birgða, eftir getu hans og þörfum landsbúa, en að hann eigi að fá fult endurgjald þess, sem hann leggur fram, nema að því leyti, sem orsakast kynni tap af verðfalli eða vörurýrnun.

Þetta hefir í stuttu máli verið stefna þingsins í dýrtíðarmálinu, sjerstaklega Nd. Ef brtt. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) yrði samþykt, myndi hún hafa mikil útgjöld í för með sjer, ef heimildin til að gjöra dýrtíðarráðstafanir samkv. frumv. á þgskj. 954 yrði alment notuð. Hefir mjer reiknast svo til, að kostnaðurinn mundi verða 170–200 þús. kr. á ári fyrir landssjóðinn. Þetta þykir mjet alt of mikil upphæð, auk þess, sem jeg er sannfærður um, að styrkurinn mundi koma misjafnlega niður og ranglátlega. Ákvæði það, sem felst í tillögunni, er því mjög athugavert og mjög hætt við því, að það yrði misbrúkað stórkostlega. Mjer finst, að það liggi ekki fjarri að ætla, að hreppsnefndir og bæjarstjórnir geti gjört dýrtíðarráðstafanir, að eins til þess, að ná í tillagið úr landssjóði.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um málið, en vænti þess, að deildin haldi fast við þá stefnu, sem hún hefir haft í dýrtíðarmálinu, og get lýst yfir því, fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að hann er eindregið á móti tillögu háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.).