13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Bjarni Jónsson:

Jeg skil ekki, að þetta frumv. sje nauðsynlegt, nema það sem sje rjett, sem þeir þingmenn sögðu, sem samþyktu verðhækkunarfrumv., að það væri að eins gjört til að jafna úr tekjuhallanum á fjárlögunum. En þetta er ekki meining annara en þeirra, sem þurfa að bera af sjer ámæli um stefnuskifti.

Nú vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. stjórnar og Velferðarnefndar, hvort hún ætli ekki að nota tekjur þær, sem fást kunna með verðhækkunartolli, til þess að afstýra hallæri í landinu. Því ef svo er, þá hefir bæði stjórnin og Velferðarnefndin nægilegt fje, til að hjálpa þeim, sem hjálpa ber.

Og hver þörf er þá á því, að gefa út sjerstök heimildarlög til hreppsnefnda og bæjarstjórna til dýrtíðarráðstafana með sjerstökum hætti? Þau eru þarfleysa, sem engum getur komið að haldi, nema ef menn vilja ná sjer fje úr landssjóði, eins og háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) sagði. Annars vil jeg ekki taka undir getsakir hans til hreppsnefnda og bæjarstjórna. Jeg veit, að í hreppsnefndum og bæjarstjórnum eiga góðir menn sæti, alveg eins og hjer á Alþingi.

Sama máli er að gegna um getsakir háttv. þm. Mýr. (J. E.). Þeir menn eru lítil góðmenni, sem vilja meina fátækum mönnum að njóta þess happs, að styrkurinn er ekki sveitarstyrkur. Jeg er sannfærður um, að fátæklingar munu ekki leita hjálpar að óþörfu, þó að enginn rjettindamissir fylgi styrknum.

Það er ekki rjett hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að alt snúist um að taka tillit til Reykjavíkur. Vildi hann auðsjáanlega gjöra tillögu háttv. 1. þingm. Rvk. (S. B.) óvinsæla í augum þingm. Þar er ekki verið að taka tillit til Reykjavíkur einnar, heldur til alls landsins, til allra þeirra, sem verst verða úti í dýrtíðinni. Það er ekki til neins að nota nafn Reykjavíkur til að gjöra málið óvinsælt, því menn vita, hve mikill hluti af þjóðinni hefst við í Reykjavík. Það er ekki lengur hægt að tala um hana eins og eitthvert kaupstaðarhorn, því hjer er 1/–1/6 hluti allra landsmanna saman kominn.

Það er auðvitað, að alt tal manna, um tillag til þeirra manna, sem eru verr settir en aðrir, vegna dýrtíðarinnar, byggist á því, hvort ástæða sje til að ætla, að harðæri verði, og ef ástæða er til að ætla það, er eins gott að vera við öllu búinn. Þess vegna spyr jeg enn þá stjórnina og Velferðarnefndina, hvort hún ætli sjer ekki að nota fje það, sem inn fæst með auknum sköttum eða tollum, til þess afla vörubirgða og nauðsynja handa landinu, svo að ekki þurfi að óttast hungurdauða, þó samgöngur milli Íslands og annara landa stöðvist. Ef þeirri spurningu er svarað játandi, þá er auðsætt, að þetta frv. er öldungis óþarft. Og jeg veit ekki í hvað skyni það er borið fram, og veit það þó, en ætla ekki að fara að karpa um það. Jeg stóð að eins upp til þess að gjöra þessa fyrirspurn, því jeg gleymdi því, þegar verðhækkunartollsfrumv. var til 2. umr. hjer í deildinni.