13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Sveinn Björnsson:

Jeg neyðist til þess, út af ummælum þeim, er fallið hafa, að leggja brtt. minni við þetta frumv. nokkurt liðsyrði. Því miður hefi jeg ekki átt kost á að hlýða á allar umræðurnar, því að jeg var kallaður frá, einmitt þegar mesti ræðuskörungurinn, háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) var að tala.

Jeg býst við því, að þeim mönnum, er greiddu atkvæði með verðhækkunartollsfrumv., hafi gengið nokkuð misjafnt til. En mjer gekk það til, að vera með því, að jeg bjóst við því, ef það yrði að lögum, að landssjóður mundi þá sjá sjer fært að hlaupa eitthvað undir bagga, á líkan hátt og jeg hefi nú stungið upp á, með þeim mönnum, sem við erfiðust kjör eiga að búa. Það var talsverður hiti í mönnum, þegar það frumv. var rætt, en nú hjelt jeg, að hann væri farinn að rjena og hjer væri gott tækifæri fyrir þingmenn, til þess að sýna sig ekki eins harðbrjósta við þá menn, er erfiðast eiga, og leggja einhvern lítinn skerf af mörkum, til þess að styrkja þá, þar sem landssjóði bætast svo miklar tekjur. (Raddir: Kosningaræða). Það heyrist nokkuð oft hjer í þingsalnum, þetta orð, sjerstaklega frá þeim mönnum, er aldrei halda annað en kosningaræður. En jeg kippi mjer ekki upp við það. Þar sem háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) sagði, að við þm. Rvk. hefðum neyðst til þess að fylgja þessum dýrtíðarmálum fram, vegna stöðugs gaspurs í Reykjavíkurblöðunum, þá vil jeg benda mönnum á það, að þegar við komum fyrst fram með dýrtíðaruppástungur okkar, þá hafði ekkert orð heyrst í blöðunum í þá átt.

Jeg vil undirstrika það, að nú er tækifærið fyrir háttv. þm. til þess að sýna samúð með þeim, sem bágt eiga. Vegna þess, hve alvörulaust og ómilt menn hafa tekið þessum uppástungum, þá get jeg ekki stilt mig um að skýra frá því, hvernig þessum málum er hagað í öðrum löndum. Jeg skal nefna t. d. Svíþjóð. Þar er bannaður útflutningur á öllu kjöti, nema svínakjöti, og er þó sá útflutningur takmarkaður. Þar er ákvarðað »maximal«-verð á mjólk og öðrum vörum, er menn þurfa að brúka í landinu, til þess að hægt sje að kaupa þær sæmilegu verði, og þar er ekki dregið dár að þeim mönnum, er eitthvað vilja í þessu efni.

Viðvíkjandi frumvarpinu sjálfu er það að segja, að það er ósköp meinlaust, en jafnframt gagnslítið. Það eru ótal ráð fyrir sveitarstjórnir til þess að koma svona málum fram án slíkra laga. Í gildandi lögum er þeim heimilað að jafna niður á hreppsbúa með aukaútsvörum öllum nauðsynlegum gjöldum hreppsins. En þau eru svo margvísleg og hægt að skapa þau á ýmsan hátt. Meðal annars geta þau orðið til við það, að keypt sje nauðsynjavara og seld mönnum svo lágu verði, að hreppurinn skaðist reikningslega á kaupunum. Það leikur enginn vafi á því, að þessu tjóni er hægt að jafna niður á menn með aukaútsvörum.

Að lokum vil jeg endurtaka það, að það gjörir hvorki til nje frá, þótt frv. verði samþykt, en það kemur ekki að neinu gagni, nema brtt. mín verði jafnframt samþykt.