13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Þorleifur Jónsson:

Þetta þing byrjaði á dýrtíðarumræðum, og það lítur svo út, sem það ætli að enda á þeim líka. Það má því með rjettu nefnast í sögunni dýrtíðarþingið.

Jeg ætlaði að minnast örfáum orðum á brtt. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.). Hún hefir það gott við sig, að enginn þarf að villast á henni. Hún er skýr og skilmerkileg. Þetta er síðasta hálmstráið, sem aðstandendur tillögunnar eru að reyna að grípa í, til þess að gjöra landssjóð að fátækrasjóði. Jeg er hræddur um, ef brtt. yrði samþykt, að talsvert skarð yrði höggvið í tekjurnar, er ráðgjört var, að landssjóður fengi af verðhækkunartollinum, ef ætti að fara að úthluta flestum bæjarfjelögum og ef til vill hreppsfjelögum á landinu dýrtíðarhjálp af því fje. Við það gæti lagst á landssjóð 170 þús. kr. skattur á ári, eftir þeim ákvæðum, er í tillögunni standa, og þá er jeg hræddur um, að færi að »saxast á limina hans Björns míns«. Þær færu þá að minka, tekjurnar af verðhækkunartollinum. Það hefir heldur aldrei vakað fyrir þeim mönnum, er greiddu atkvæði með því frumv., að nota fjeð, er við það aflaðist, til sjerstakrar dýrtíðarhjálpar. Þetta er því einhver ný fluga hjá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.). Fyrir mjer vakti það, að fjeð ætti að nota til þess, að afla landinu yfirleitt erlendrar nauðsynjavöru, en ekki að búta það niður í beinan fátækrastyrk handa Reykvíkingum og öðrum kaupstaðarbúum. Sannleikurinn er líka sá, að það hefir verið gjört miklu meira orð á vandræðunum hjer en þau eru í raun og veru. Blöðin hafa blásíðu að kolunum og æst menn upp á móti vissum flokki eða vissri stjett í þinginu, og háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir neyðst til að dansa eftir þeirra pípu. Ýmsir vitrir menn hjer í borg kannast ekki við, að vandræðin hjer sjeu eins mikil, eins og blöðin láta í veðri vaka.

Jeg átti nýlega tal við einn gamlan borgara og bæjarfulltrúa hjer í Reykjavík. Hann kvað sjaldan hafa verið meira góðæri hjer í bæ en einmitt nú. Mokafli og ágætis atvinna fyrir alla, sem vetlingi valda.

Það er orðið dálítið þreytandi alt þetta dýrtíðarhjal, einkanlega fyrir þá, sem verið hafa í nefndum um þessi mál, eins og jeg hefi verið. Það klingir ætíð við, að hjer í borginni muni verða voðaleg vandræði, en, sem betur fer, held jeg, að sá ótti sje ástæðulaus, þótt ef til vill einstaka heimili verði bjargarlítil, en þá er þetta frumv. þeim til hjálpar. Jeg tel ekki efnamennina, og hjer eru mestu stóreignamenn landsins, of góða til þess, að hlaupa þá undir bagga, sjerstaklega kaupmennina, því að enginn skattur var á þá lagður með verðhækkunarfrumv. því, sem samþykt var hjer á dögunum. Þess vegna er frumv. ekki látalæti, eins og sumir háttv. þm. hafa sagt. Jeg álít yfirleitt, að frumv. sje til góðs, en vil vara háttv. þingdeild við brtt. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.).