13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (2418)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsm. meiri hl. (Þórarinn Benediktsson):

Jeg vona, að þetta verði síðasta dýrtíðarræðan, sem haldin verður hjer í deildinni, enda munu nú víst flestir hafa fengið nóg af slíku.

Jeg þarf ekki að tala langt fyrir hönd nefndarinnar, því að háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) og háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) hafa þar tekið af mjer ómakið og mótmælt mestu af andmælum þeim, sem fram hafa komið gegn frumv.

Það eru að eins tvær athugasemdir eða svo, sem jeg skal leyfa mjer að gjöra.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) lagði út af því, að frumv. hefði í för með sjer misrjetti milli þeirra, sem sveitarstyrk þiggja, og annara fátækra manna. Jeg held, að hann fari hjer nokkuð langt. Jeg sýndi fram á það við 2. umr., að þetta er ekki rjett álitið. Læt jeg mjer nægja að skírskota til þess, sem jeg sagði þá um þetta efni. Tilgangurinn er sá fyrst og fremst, að sjá fátækum mönnum fyrir atvinnu, og þá alveg eins sveitarstyrkþegum og öðrum. Fá þeir þannig þá hjálp, sem þeim mundi verða notadrýgst.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) beindi þeirri fyrirspurn til stjórnarinnar, hvort hún liti ekki svo á, að útflutningsgjaldið, sem samþykt var á dögunum til bráðabirgða, væri sjerstaklega ætlað til dýrtíðarráðstafana. Jeg var ekki alls kostar ánægður með svar hæstv. ráðherra. Mjer þótti það ekki nógu skýrt. Og jeg verð að segja það, að engin stjórn eða velferðarnefnd þarf að ganga gruflandi að því, hver sje vilji þingsins í þessu efni; hann hefir svo oft komið fram, að stjórnin þarf ekki að vera í neinum vafa þar um. Hann má finna ótvíræðan í öllum hinum löngu umræðum og nefndarálitum um dýrtíðarmálin svo nefndu, auk þess, sem sjest af atkvæðagreiðslum þingsins um þessi mál. Nú síðast lýsir þessi vilji sjer í nefndarálitinu á þgskj. 925, og er þar skýrt tekið fram, hver stefnan eigi að vera í dýrtíðarmálunum, og vil jeg slá því föstu, að eftir því, sem fram hefir farið eigi stjórn og Velferðarnefnd að fara við ráðstafanir sínar.

Um brtt. háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) skal jeg ekki fjölyrða, með því að enginn þeirra mörgu, sem talað hafa, hefir lagt henni liðsyrði; má þar af draga þá ályktun, að hún hafi eigi mikinn byr. Jeg vil mælast til þess, að haft verði nafnakall um þá tillögu.