21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg skal byrja með að lýsa yfir því, að jeg er algjörlega á móti þessu frumv. Jeg hefi ekki sjeð önnur lög gjöra meira gagn. Að minsta kosti var það svo í mínu bygðarlagi, að þau stuðluðu betur en nokkuð annað að því, sem jeg vildi helst, að allir legðu sem mesta áherslu á, og það er grasræktin. Það er ómótmælanlegur sannleikur, að menn vinna miklu meira á þeim jörðum, sem þeir eiga sjálfir, heldur en á annarra jörðum. Það eru allir, eða að minsta kosti flestir, svo eigingjarnir, að þeir hugsa meira um sitt en annarra. Það þýðir ekkert að mæla á móti því. Menn byggja miklu fremur dýr mannvirki, er þeir vita, að þeir eru að vinna fyrir sjálfa sig en ekki aðra. Ef ábúandinn fær ekki jörðina keypta, þá hverfur áhugi hans fyrir því, að gjöra henni mikið til góða, en það hefir verið svo víðast þar, sem jeg þekki til, að þegar ábúandinn hefir fengið jörðina keypta, þá er alvarlega tekið til verka, bæði að húsa- og jarðabótum. Það hefir verið talað um það, að það mætti ná tilgangi þjóðjarðasölulaganna með því, að tryggja erfingjum leiguliðanna á þjóðjörðunum ábúðina eftir þeirra dag. Þetta er ekki rjett. Því hvernig yrði slíkum arfi skift á milli erfingjanna? Ekki yrði farið að skifta jörðinni á milli þeirra, heldur fengi einn erfinginn alt og hinir ekkert. Það getur líka staðið svo á, að börnin geti ekki notað þennan rjett sinn. Jeg er því ekki í neinum vafa um það, að það dregur mjög úr jarðabótum á landinu, ef ekki verður hægt að fá þjóðjarðirnar keyptar.

Það verður reglan hjer sem annarstaðar, að það er ljúfara að vinna hjá sjer en öðrum.

Jeg er viss um, að ef þetta stöðvaðist, þá stöðvuðust um leið þessar framkvæmdir. Jeg lít svo á, að sýslunefndirnar eigi að líta eftir því, að þær jarðir verði ekki seldar, sem telja má óheppilegt, að verði einstakra manna eign, af því, að þær sjeu vel fallnar til opinberra þarfa, eða þeim sje haldið óseldum í einhverju sjerstöku augnamiði, enda myndi jeg aldrei samþykkja að selja jörð, ef sýslunefnd legði á móti sölunni. Jeg treysti því, að þessi deild vilji hlynna að grasrækt landsins, og það gjörir hún best með því að styðja að því, að jarðirnar komist í sjálfseign. Jeg skal bæta því við, að jeg legg ekki mikið upp úr þeirri mótbáru, sem komið hefir fram móti þessu atriði, að hætta sje á, að jarðirnar gengju kaupum og sölu. Það hefir mjög lítið brytt á því þar, sem jeg þekki til, þó ómögulegt sje að taka ábyrgð á, að slíkt geti komið fyrir, enda engin hætta á ferðum, þó slíkt komi fyrir við og við. Það mun oftast verða svo, að hver einstök jörð verður í höndum þess manns, sem á henni býr. Aðaláhersluna verður að leggja á það, að bændur búi á sínum eigin jörðum.