04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Stefán Stefánsson:

Jeg skal ekki vera margorður um þetta mál, enda hefir margt verið um það talað. Það, sem veldur því, að jeg get verið stuttorður, er það, að nefndarálit okkar meiri hluta manna sýnir fullljóst afstöðu okkar til málsins, og framsögum. okkar (B. H.) hefir einnig tekið fram enn ljósar ástæður þær, sem við færum fram í álitinu, og, að því er jeg fæ best sjeð, hrakið ástæður þær, sem minni hlutinn ber fram í sínu nefndaráliti.

Mjer kemur það hálfundarlega fyrir sjónir, að þetta frumv. um frestun á framkvæmd laganna um sölu þjóðjarða og kirkjujarða er fram komið, þar sem jeg minnist þess ekki, að minst hafi verið á þessi lög á einum einasta þingmálafundi í vor og því síður, að komið hafi fram í þeim þingmálafundargjörðum, sem lagðar eru fram hjer á lestrarsalnum, nokkur ósk í þá átt, að nú skuli frestað um fimm ára bil allri sölu á þjóðjörðum og kirkjujörðum. Þetta tiltæki flutningsmanna kemur því öllum almenningi mjög á óvart. Og þegar litið er til þess, að undirbúningur undir þessi lög var meiri en venjulegt er um önnur mál, þar sem umsagnar almennings hafði verið leitað um aðalstefnu þess, og milliþinganefnd skipuð í það, sem starfaði að því, þá er þessi stefnubreyting nú því torskildari en annars mátti við búast. Nefndin sendi fyrirspurnir í allar sýslur og jafnvel flesta hreppa á landinu um það, hvernig menn litu á þetta mál og svörin voru alment hin sömu, að menn væru málinu hlyntir og óskuðu, að lög kæmust sem fyrst á, er heimiluðu sölu opinberra jarðeigna. Það er því undarlegra, sem undirbúningurinn var svona góður, áhugi manna svona mikill og málið komið í fastar skorður, að koma nú, upp úr þurru, með uppástungu um, að eyðileggja lögin, því auðvitað er það aðaltilgangur flutningsmannanna.

Þetta frumvarp byggist því ekki að nokkru leyti á þeim undirbúningi, sem ætlast mætti til, að bygt væri á, þar sem engin sönnun er færð fyrir því, að almenningur, sem áður var einhuga með málinu hafi nú svo greinilega breytt um skoðun í þessu máli, að ekki sje gjörlegt, að halda sölunni lengur áfram. En svo skal jeg víkja nokkrum orðum að ræðum þeirra manna, er talað hafa með þessari frestunarstefnu.

Skoðanir háttv. þingm. N.-Ísf. (Sk. Th.), virðast mjer svo fáránlegar skýjahugmyndir, að jeg skal að mestu leiða hjá mjer að fara út í slíkt hugmyndaflug, en þar sem hann telur þjóðjarðasölu baka landinu stórtjón, þá get jeg ómögulega á það fallist, því jafnvel þó að sumar opinberar jarðeignir hafi verið seldar lægra verði en vel var fyrir þær gefandi, sem þá er sök matsmanna og stjórnarráðsins, þá er óneitanlega betur með jarðirnar farið í sjálfseign yfirleitt en í leiguábúð, og það er þó mest um vert, því endurbætur á jörðunum í landinu, er beinn þjóðarhagur, hvort heldur að sá hagur rennur beint til landssjóðs eða sjálfseignarbóndans, og að gjöra þessa verulegan mun er því skammsýni. Að sjálfseignir skiftist sundur í smá parta kemur að vísu fyrir á stöku stað, en eftir kenningu þingmannsins, að allir fái land til ábúðar og ræktunar, sem þess eru umkomnir, þá ætti það ekki að standa í vegi fyrir sölu þjóðjarða. Þessi ástæða er því ekki veigamikil. Þá gat sá sami þingmaður (Sk. Th.) þess, að landssjóður væri sá besti landsdrottinn. Því skal jeg ekki neita, að svo er venjulega, en þó eru á því nokkrar undantekningar, sjerstaklega hvað það snertir, að veita álitlegustu umsækjendum ábúðina, sem þá hlýtur að vera fyrsta áhugamál landsdrottins við hver ábúandaskifti. Þá vildi háttv. framsm. meiri hl., 1. þm. Húnv. (G. H.), að þessi 5 ára sölufrestur væri gefinn til þess, að athuga málið á ný. Til þess er því að svara, að við, sem álítum jarðir betur farnar í sjálfsábúð en leiguábúð, getum ekki fallist á þessa stefnu frumv., og hvers ættu þá þeir að gjalda, sem framvegis óska að fá ábýlisjarðir sínar keyptar? En auðvitað verður að heimta og treysta því, að jarðirnar sjeu seldar fullu verði. Vafalaust eru þess fá dæmi, að sjálfseignarjarðir sjeu hörmulega útleiknar, kofarnir drafni og hrynji niður og tún og engjar sjeu í órækt, og vafalaust mætti finna þessa fleiri dæmi meðal leigujarða. En eftir því, sem þingmanninum sagðist, þá ætti þetta þó ekki að hindra söluna, því jafnframt tók hann fram, að þær þjóðeignir, sem seldar hafa verið ábúendum, væru langtum betur setnar en þær, sem hefðu verið í sjálfsábúð um lengri tíma. Sje þetta rjett, þá er enginn vafi á því, að salan á að vera heimil, því það gegnir engum svörum, að sjálfseignir sjeu og hafi verið verr setnar, þótt lengi hafi verið í sjálfseign, en opinberar eignir yfirleitt.

Þá kemst minni hlutinn svo að orði í áliti sínu undir c.-lið:

»Allar húsa- og jarðabætur, er ábúandi gjörir á jörðinni, eru hans eign og greiðast honum eftir sanngjörnu mati, ef hann fer frá jörðinni. Þó skal eigi hærra metið en svo, að svari því afgjaldi, er leigja mætti jörðina fyrir«.

Hjer lendir minni hlutinn í þeim vanda, er hann kemst ekki slysalaust frá, því ekkert rjettlæti er það, gagnvart ábúanda, sem þó ekki hefir bygt nema nauðsynleg hús, að draga svo af sannvirði þeirra, að svari því afgjaldi, er leigja má jörðina fyrir. Með öðrum orðum, að gjöra manninum því tilfinnanlegra tjón, sem hann hefir vandað meira til bygginganna. Nei, hjer er einmitt að tala um einn verulegan galla eða annmarka á leiguliðaábúðinni, enda hafa fráfarendur orðið að kenna á honum. Húsa- og jarðabætur verður að meta sanngjörnu verði, án tillits til eftirgjalds, svo lengi, sem slíkt eykur gildi jarðarinnar, og eigandi á að borga að frádregnu því, sem jarðabæturnar hafa endurgoldið fráfarandanum; annað virðist mjer ekki geta komið til mála.