04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (2435)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson):

Mjer kom það á óvart um jafn lærðan mann og háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), að hann skyldi vera jafn ófróður og ræða hans bar með sjer um almenn undirstöðuatriði þeirrar fræðigreinar, er hjer er verið að tala um. Hann kallaði uppástungu okkar minni hlutans »socialismus«, en annars kom það fram í ræðu hans, að honum er ekki vel ljóst hvað »socialismus« er. »Socialismus« er auðvitanlega góð stefna, hefir sína kosti og líka lesti, en því fer fjarri, að jafnaðarmenn einir haldi því fram, að allar jarðir eigi að vera þjóðareign. Það gjöra menn úr öllum flokkum. Þeir eru ekki í meiri hluta í heiminum, en í öllum löndum eru til margir menn, sem hafa þessa trú, og hafa fært góð rök fyrir máli sinu. Jeg skal að eins nefna mann eins og Loyd George. Hann hefir ekki verið talinn neinn jafnaðarmaður, en þó fara uppástungur hans í þá átt, að gjöra alla bændur að leiguliðum landsins, og færir hann góð rök fyrir sínu máli.

Hinu aðalatriðinu í ræðu háttv. þm. (G. E.), að minni hlutinn vildi halda uppi einskonar aðalsmensku, sleppi jeg, því að það datt einhvern veginn botninn úr því í ræðu hans sjálfs.

Yfir önnur atriði get jeg farið fljótt. Jeg spurði áðan vel lesinn mann í þeim efnum, hvort hann hefði nokkurn tíma heyrt getið um skattafræðing, sem ekki teldi það rjettmætt, að sú verðhækkun, sem yrði á landareign, og ekki væri fyrir atbeina ábúanda, yrði að mestu leyti eign hins opinbera. Hann svaraði því auðvitað neitandi. Þetta kom háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) ókunnuglega fyrir. Jeg get ekki að því gjört, en taki hann hvaða fræðibók, sem er, er um slík mál talar, og hann mun finna, að jeg segi satt.

Tímans vegna fer jeg ekki út í fleiri atriði í ræðu háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), en skal leyfa mjer að minnast á tvö atriði í ræðu háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.). Jeg játa það, að almenningur mun yfirleitt hafa verið og vera fylgjandi sölu þjóðjarða, en jeg fæ ekki sjeð, að jeg og aðrir þingmenn megi ekki hafa aðra meiningu um það en almenningur. Og þótt kjósendur vilji mig ekki fyrir þingmann fyrir bragðið, þá mun jeg ekki setja það fyrir mig.

Svo ætla jeg að gjöra dálítið betri grein fyrir því, sem mestum deilum hefir valdið í þessu máli. Háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) talaði mikið um það, hversu ábúandi liði við það, að verk hans á jörðinni yrðu ekki hærra metin en sem svaraði því, er hægt væri að fá af jörðinni, ef hún væri leigð. Jeg skal skýra þetta mál fyrir háttv. þm. með einföldu dæmi. Segjum sem svo, að háttv. 2. þm. Eyf. (St. St.) eigi jörð, sem jeg sje leiguliði á. Jeg gjöri þær einar endurbætur á jörðinni, að jeg byggi þar hrútakofa. Segjum enn fremur, að jeg fyndi upp á því, að gjöra veggina á kofanum 10 álna þykka, í stað þess sem venjulegt er. Nú þegar jeg fer er enginn vafi á því, að jeg hefi lagt ákaflega mikið strit og kostnað í kofann. Nú vil jeg spyrja: Vill hann borga mjer kofann, svo sem hann hefir kostað mig, er jeg fer frá jörðinni? Jeg býst við, að hann segi sem svo, að honum hafi engin þægð verið í því, að jeg bygði kofann með svo þykkum veggjum, en kofann skuli hann borga mjer eins og hann hefði verið með meðalþykkum veggjum. Jeg hygg, að hann hefði rjett fyrir sjer í þessu, því að þótt jeg hafi lagt mikið strit í þetta óþarfa verk, þá er gildi jarðarinnar ekki aukið við það.

Dæmið um kofann getur gilt um allar þær endurbætur á jörðinni, sem nýr ábúandi metur ekki að neinu eða telur óþarfar, en svo vill oft verða með dýrar byggingar. Þetta er algengt ytra, að menn byggja meira en jarðirnar geta borið og tapa fje sínu á þann hátt. Þjóðverjar áminna stranglega húsmenn sína og smábændur, að forðast verði allan óþarfa kostnað við byggingar, fara ekki eftir því, sem æskilegt væri, heldur láta sjer nægja með það, sem nauðsynlegt sje og jörðin geti borið. Því fje, sem fari fram úr því, sje kastað í sjóinn. Þeir fái það sjaldnast endurgoldið. Og þótt um einstaklingseign sje að ræða, þá tapast venjulega það, sem leiguliði metur lítils eða einskis. Hjer er því fjarri því, að nokkur rjettur sje fyrir borð borinn. Gallarnir eru hinir sömu, hvort sem um sjálfseign eða þjóðjörð er að ræða.