04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Stefán Stefánsson:

Það eru að eins örfá orð út af dæminu sem háttv. framsögum. minni hlutans (G. H.) kom fram með sínu máli til sönnunar. Hann var auðsjáanlega kominn í algjörðan bobba með þá skoðun sína, að fráfaranda skuli aldrei greitt hærra gjald fyrir húsa- og jarðabætur en því afgjaldi svarar, sem jörðin byggist fyrir, og mat úttektarmanna skuli algjörlega miðað við þennan mælikvarða. Til þess að hrekja mótmæli mín gegn þessari fráleitu skoðun, þurfti hann að byggja hrútakofa með 10 álna þykkum veggjum, og ætlaði þannig að sanna eina fjarstæðuna með annarri. En ef við tökum eðlilegt dæmi, og segjum, að fráfarandi hafi flutt á jörðina fyrir 3 árum, niðurnídda að húsum og öðrum mannvirkjum, fengið þá í álag 2–300 kr., en svo kostað til nauðsynlegra húsabóta og annarra endurbóta á jörðinni, 2–3000 kr. Getur þá háttv. þm. búist við því, að nokkur matsmaður, mæti ekki alt fjárframlag fráfaranda meira en það, sem svaraði hæfilegum eftirgjaldsauka árlega, eða mundi nokkur viðtakandi vilja taka jörðina, þrátt fyrir þessar miklu húsabætur, fyrir aukið árlegt eftirgjald, sem næmi fullum 100 krónum? Nei, það mundi fara fjarri því. Og þess verða menn vel að gæta, að þótt þeir eigi landsstjórnina fyrir landsdrottinn, þá er það ekki hún, sem ræður matinu, heldur úttektarmennirnir, sem treysta verður til þess, að meta allar bætur á jörðinni, ekki síður sanngjarnlega gagnvart fráfaranda en jarðareiganda, og væri nú t. d. háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) fráfarandi, þá mundi honum hæglega geta dottið í hug, að fá fult verð fyrir hrútakofann sinn, án alls tillits til þess, hversu hátt eftirgjald kotið leigðist fyrir, og það teldi jeg líka ofur eðlilegt, þegar út frá því er gengið, að kofabyggingin hafi þó verið nauðsynleg, hvað sem 10 álna veggjaþyktinni liður.